148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

breyting á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld.

423. mál
[15:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á skattalögum af ólíkum toga. Þar má nefna skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa, flýtingu á álagningu opinberra gjalda, reglur um ívilnanir til lækkunar á tekjuskattsstofni, orðalag í ákvæðum tekjuskattslaga um tekjur manns af útleigu íbúðarhúsnæðis, rafræn samskipti og birtingu álagningar og að lokum skuldajöfnun vegna vangoldinna skatta og gjalda.

Ég ætla hér að fjalla um einstök efnisatriði frumvarpsins nokkuð ítarlega. Það er þá fyrst skattfrádráttur vegna hlutabréfakaupa: Hér ber fyrst að nefna breytingartilllögur er varða skattafslátt vegna hlutabréfakaupa í formi frádráttar frá tekjuskattsstofni, í því skyni að hvetja einstaklinga til að kaupa hlutabréf sem sparnaðarform og þar með til frekari nýtingar á þessari skattalegu ívilnun. Hvatinn felst í því að þeim skilyrðum sem einstaklingar og félög þurfa að uppfylla verður fækkað og þau einfölduð. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að einstaklingur og félagið sem hann hyggst fjárfesta í vegna hlutafjáraukningar þurfi ekki lengur að uppfylla þau skilyrði sem varða annars vegar tengsl einstaklingsins við félagið og hins vegar þau skilyrði sem varða félagið sjálft og starfsemi þess í fyrirframákveðinn tíma eftir að hlutafjáraukning félagsins hefur átt sér stað. Það að einstaklingur og félagið þurfi samkvæmt núgildandi lögum að halda áfram að uppfylla skilyrðin í fyrirframákveðinn tíma eftir að hlutafjáraukning félagsins hefur átt sér stað er talið draga úr hvata til að nýta sér frádráttinn.

Einnig er lagt til að það skilyrði falli brott að einstaklingur sem hyggst nýta sér skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa megi ekki vera starfsmaður félagsins sem hann hyggst fjárfesta í. Tillaga þessi ætti að hafa í för með sér bæði jákvæð áhrif á hlutafjáraukningu félags og að gera frádráttarferlið skilvirkara.

Í öðru lagi er talað um breytingu á álagningardegi einstaklinga og lögaðila. Þar er lagt til að álagningardegi einstaklinga og lögaðila verði flýtt um einn mánuð. Álagning einstaklinga verður þannig birt um mánaðamótin maí – júní og álagning lögaðila um mánaðamótin september – október á þessu ári. Einnig er lagt til að kærufrestur álagningar, sem nú er tveir mánuðir, verði lengdur í þrjá mánuði. Á undanförnum árum hefur álagning á einstaklinga farið fram í lok júlí ár hvert og álagning á lögaðila í lok október. Öll úrvinnsla á skattframtölum er nú orðin sjálfvirk og heyrir handvirk afgreiðsla til undantekninga. Að auki er heppilegra, vegna allra samantekta á þjóðhagsstærðum, og eins með tilliti til þarfa skattgreiðenda, að álagning opinberra gjalda liggi fyrir sem fyrst. Í fyrra var fyrsta skrefið tekið þegar álagning einstaklinga var færð fram um einn mánuð, þ.e. til mánaðamótanna júní – júlí, en í frumvarpinu er lagt til að nýtt skref verði stigið með frekari flýtingu álagningar einstaklinga fram til loka maí og flýtingu lögaðila fram um einn mánuð, sem sagt til loka september.

Í þriðja lagi er fjallað um heimild til lækkunar á tekjuskattstofni. Þetta er ívilnun. Í frumvarpinu er lögð til minni háttar breyting á ákvæði tekjuskattslaga sem heimilar ríkisskattstjóra við tilteknar aðstæður að lækka tekjuskatts- og útsvarsstofn einstaklinga, þ.e. svokallaðar ívilnanir. Eftir að embætti skattstjóra voru sameinuð undir stjórn ríkisskattstjóra í ársbyrjun 2010 er í lögum um tekjuskatt að finna heimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð um nánari skilyrði fyrir slíkum ívilnunum. Fram til þessa hefur ríkisskattstjóri sett reglur um skilyrði fyrir umræddum ívilnunum og viðmiðunarreglur um ívilnanir með eins nákvæmum hætti og unnt er á grundvelli laganna. Í frumvarpinu er því lagt til að sú heimild verði felld brott en í þess stað kveðið á um að ríkisskattstjóri skuli í upphafi hvers árs, að fenginni staðfestingu ráðherra, gefa út reglur um nánari skilyrði fyrir veitingu ívilnana samkvæmt ákvæði laganna.

Þá er komið að útleigu íbúðarhúsnæðis. Með lögum nr. 59/2017 voru gerðar breytingar á lögum um tekjuskatt þar sem skýr greinarmunur var gerður á skattalegri meðferð leigutekna af íbúðarhúsnæði eftir því hvort um var að ræða útleigu sem féll undir húsaleigulög, heimagistingu samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og aðra útleigu á íbúðarhúsnæði í atvinnuskyni eða sjálfstæða starfsemi. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 59/2017 var upphaflega vísað til útleigu til varanlegrar búsetu leigutaka en við meðferð frumvarpsins á Alþingi komu fram ábendingar um að vísa fremur til útleigu íbúðarhúsnæðis sem félli undir húsaleigulög. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar taldi þá afmörkun skýrari og var ákvæðum frumvarpsins breytt í þá veru. Í ljós hefur komið að láðst hefur að gera sambærilega breytingu á einu ákvæði tekjuskattslaga þar sem enn er vísað til eldra orðfæris. Lagt er til að úr því verði bætt svo að samræmis gæti í orðalagi en tillagan felur að þessu leyti til ekki í sér neina efnisbreytingu. Vegna þessa felst ekki í þessari tillögu nein efnisbreyting.

Virðulegi forseti. Þá ætla ég að víkja hér að rafrænum samskiptum og rafrænni birtingu álagningar. Í frumvarpinu er að finna tillögu um rafræn samskipti skattyfirvalda við einstaklinga og fyrirtæki og birtingu álagningar á opinberum gjöldum. Eins og flestir vita hafa rafræn skil á skattframtölum verið tekin upp í áföngum undanfarin ár með mjög góðum árangri. Í fyrstu var lögfest heimild til handa ríkisskattstjóra að ákveða að lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri skyldu skila skattframtölum í tölvutæku formi. Einstaklingar utan atvinnurekstrar komu inn síðar. Nú er lagt til að framangreind ákvæði verði sameinuð og samræmd. Þá þykir einnig ástæða til að heimila með skýrum hætti að niðurstöður álagningar megi almennt tilkynna framteljendum rafrænt. Nánast allir framteljendur eiga í rafrænum samskiptum við skattyfirvöld og afla sér nauðsynlegra upplýsinga með rafrænum hætti á vef ríkisskattstjóra eða á þjónustusíðu sinni. Útsending álagningarseðla á pappír er því á skjön við þessa þróun, enda stækkar sá hópur frá ári til árs sem afþakkar bréflega móttöku álagningarseðils og þykir því ástæða til að heimila með skýrum hætti að niðurstöður álagningar megi almennt tilkynna framteljendum rafrænt. Með auknum rafrænum samskiptum eru umhverfisvernd, hagræðing í rekstri og skilvirk samskipti við einstaklinga og fyrirtæki höfð að leiðarljósi, auk þess sem verið er að bregðast við auknum kröfum upplýsingasamfélagsins um rafræn samskipti á sem flestum sviðum.

Ég ætla næst að víkja að skuldajöfnun. Hér eru lagðar til breytingar á ákvæðum skuldajöfnunar á inneign skattaðila upp í skuld hans vegna ógreiddra opinberra gjalda. Samkvæmt ákvæðum skattalaga er skylt að skuldajafna kröfum á móti inneignum óháð tímamörkum, til að mynda í virðisaukaskatti. Samkvæmt ákvæðum gjaldþrotalaga er það gert að skilyrði fyrir skuldajöfnun að krafa þrotabús á hendur lánardrottni hafi orðið til fyrir frestdag sem er sá dagur er héraðsdómara berst beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti. Skattalög og gjaldþrotalög stangast því á hvað þetta varðar eins og sjá má af hæstaréttardómi nr. 329/2016. Dómarinn taldi gjaldþrotalögin innihalda sérákvæði sem gengju framar ákvæðum skattalaga að þessu leyti og þar sem kröfur vegna inneignar í virðisaukaskatti urðu allar til eftir frestdag, í því tiltekna máli, var fallist á kröfur þrotabúsins um riftun á greiðslum sem fóru fram með skuldajöfnun tollstjóra á inneignum í virðisaukaskatti upp í skuld vegna ógreiddra opinberra gjalda. Staðgreiðsla launagreiðanda og virðisaukaskattur ásamt fleiri gjöldum eru svonefndir vörsluskattar og eiga aðeins að vera tímabundið í vörslu fyrirtækjanna og eru aldrei eign neins annars en ríkissjóðs. Því er lagt til að við lög um tekjuskatt, virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda og staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur verði bætt ákvæði sem kveður á um að skuldajöfnun skuli fara fram vegna inneigna á tímabilum fyrir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti þrátt fyrir ákvæði gjaldþrotaskiptalaga. Skuldajöfnun mun því fara fram hvort sem krafa hefur orðið til fyrir eða eftir frestdag samkvæmt gjaldþrotalögum enda óeðlilegt að skuldajöfnunarheimild sé háð því hvenær aðili kýs að skila inn skýrslum eða hvenær inneign myndast.

Virðulegi forseti. Ekki er gert ráð fyrir því að þær lagabreytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi muni hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs. Samanlagt, verði frumvarpið að lögum, eru þetta óteljandi áhrif. Núverandi úrræði — ég hefði nú kannski átt að orða þetta aðeins öðruvísi. Þetta eru ekki teljandi áhrif en þau eru ekki óteljandi mörg, þau eru bara einfaldlega ekki teljandi. Verði þetta frumvarp óbreytt að lögum munum við ekki sjá mikil áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Núverandi úrræði til lækkunar tekjuskattsstofns vegna hlutabréfakaupa, sem komu inn í lög fyrir fáum árum, hafa haft mun minni áhrif á tekjur ríkissjóðs en gert hafði verið ráð fyrir. Við álagningu ársins 2017 og tekjur ársins 2016 voru 30 einstaklingar sem lækkuðu tekjuskattsstofn sinn samanlagt um einungis 18 milljónir fyrir tilstilli úrræðisins. Það er erfitt að segja til um hve margir einstaklingar muni koma til með að nýta sér úrræðið eftir að skilyrðum sem þarf að uppfylla hefur verið fækkað en með hliðsjón af álagningu ársins 2017 metur fjármála- og efnahagsráðuneytið það svo að vænta megi þess að mögulega muni 200 einstaklingar nýta sér skattafsláttinn sem felst í frádrætti frá tekjuskattsstofni. Það þýðir að tekjutap myndi geta numið um 28 milljónum og fyrir sveitarfélögin einungis 12 milljónum.

Þá er gert ráð fyrir því að þær breytingartillögur sem snúa að skuldajöfnun vegna vangoldinna skatta og gjalda muni koma í veg fyrir hugsanlegt tekjutap ríkissjóðs vegna riftana skuldajöfnunar í kjölfar dóms Hæstaréttar nr. 329/2016. Aðrar breytingar frumvarpsins eru taldar hafa óveruleg áhrif eða engin áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Virðulegur forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.