Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda.
Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir öðru máli sem varðar lífeyrissjóðakerfið. Hér er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997, með síðari breytingum. Í frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Er þar fyrst að nefna tillögu um að felld verði brott ýmis ákvæði í lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda sem eru efnislega samhljóða ákvæðum laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, svokallaðra lífeyrissjóðalaga, en Söfnunarsjóðurinn starfar að meginstefnu til á sama hátt og aðrir lífeyrissjóðir.
Breytingar á lífeyrissjóðalögunum krefjast í einhverjum tilvikum jafnframt breytinga á lögum sjóðsins á meðan aðrir lífeyrissjóðir, sem starfa á grundvelli lífeyrissjóðalaganna og samþykkta sinna, þurfa einungis að gera breytingar á samþykktum vegna slíkra lagabreytinga. Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda starfar á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, laga um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, nr. 155/1998, og samþykkta fyrir sjóðinn. Með lögum nr. 155/1998 er Söfnunarsjóðnum ekki ætlað annað hlutverk en öðrum lífeyrissjóðum utan þess að honum er ætlað að vera lífeyrissjóður þeirra launþega/einstaklinga sem ekki eiga kjarasamningsbundna aðild að öðrum sjóðum, samanber 6. gr. lífeyrissjóðalaganna. Þá hefur sjóðurinn jafnframt hlutverki að gegna samkvæmt 47. gr. lífeyrisjóðalaganna þegar lífeyrissjóður uppfyllir ekki lengur skilyrði laganna um starfsleyfi lífeyrissjóða og umsjónaraðili hefur verið skipaður yfir sjóðnum.
Ekki þykir nauðsynlegt að í sérlögum um sjóðinn sé að finna ákvæði sem eru efnislega samhljóða ákvæðum lífeyrissjóðalaganna. Í samræmi við það er lagt til að nokkur ákvæði í lögum um sjóðinn verði felld brott enda felast í þeim sömu réttindi og skyldur og kveðið er á um í lífeyrissjóðalögunum.
Í öðru lagi er lagt til að varamönnum í stjórn sjóðsins verði fækkað úr sjö í tvo. Reynslan sýnir að ekki er ástæða til að viðhalda núverandi fjölda varamanna. Því þykir rétt að leggja til að skipuðum varamönnum í stjórn sjóðsins verði fækkað.
Í gildistökuákvæði er gert ráð fyrir að 1. gr. frumvarpsins, sem felur í sér fækkun varamanna, taki gildi þegar skipunartíma núverandi stjórnar er lokið, þ.e. árið 2020. Aðrar breytingar geta þegar tekið gildi.
Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.