148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

453. mál
[16:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með síðari breytingum. Hinn 1. janúar 2018 tóku gildi lög nr. 116/2016 sem breyttu lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og fleiri lögum. Með breytingunum er einstaklingum gefinn kostur á að taka hálfan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, frá 65 ára aldri, að því tilskildu að allir skyldubundnir atvinnutengdir lífeyrissjóðir, sem einstaklingur á réttindi í, hafi heimilað sjóðfélögum töku á hálfum lífeyri. Eigi þessi heimild að gilda fyrir sjóðfélaga í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þarf að breyta lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem þetta frumvarp fjallar um.

Í frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á lögum um LSR. Er þar fyrst að nefna það skilyrði fyrir töku hálfs ellilífeyris úr B-deild sjóðsins að sjóðfélagi minnki starfshlutfall sitt í hálft starf ef hann er í starfi sem veitir aðild að B-deild sjóðsins eða hefði veitt rétt til aðildar að sjóðnum fyrir stofnun A-deildar LSR 1. janúar 1997. Með hálfu starfi er átt við að starfshlutfall sjóðfélaga í B-deild LSR við töku á hálfum lífeyri getur hvorki numið hærra né lægra hlutfalli en 50% til að hann haldi aðild sinni að B-deild sjóðsins. Sjóðfélaga er þó heimilt að minnka starfshlutfall sitt í lægra starfshlutfall en hálft starf en við það tapast réttur til aðildar að B-deild sjóðsins.

B-deild LSR var lokað fyrir nýjum launagreiðendum og sjóðfélögum í árslok 1996 með lögum nr. 141/1996, en með þeim voru gerðar breytingar á lífeyrissjóðakerfi ríkisstarfsmanna. B-deildin er ekki nema að litlu leyti fjármögnuð með iðgjöldum og ávöxtun þeirra en að stærstum hluta með samtímagreiðslum frá launagreiðendum og ríkissjóði, samanber 32. og 33. gr. laga nr. 1/1997. Lífeyriskerfi B-deildar felur því einungis að litlu leyti í sér sjóðsöfnun og byggist fjármögnunin aðallega á gegnumstreymi.

Ef veitt yrði heimild til töku hálfs ellilífeyris úr sjóðnum án nokkurra skilyrða hefði það að líkindum í för með sér að allflestir virkir sjóðfélagar myndu nýta sér þann kost við 65 ára aldur. Það myndi auka skuldbindingar sjóðsins um allt að 10 milljarða kr. Í ljósi þess að B-deild LSR er eftirlaunasjóður þar sem starfslok eru skilyrði fyrir töku ellilífeyris úr sjóðnum verður að telja eðlilegt að binda heimild til töku hálfs ellilífeyris úr B-deild því skilyrði að sjóðfélagi minnki starfshlutfall sitt í hálft starf. Sjóðfélagar sem greiða í A-deild LSR og eiga svokölluð geymd réttindi í B-deild þurfa einnig að hafa látið af starfi til að eiga rétt á töku lífeyris úr B-deild ef starfið hefði veitt rétt til aðildar að sjóðnum fyrir stofnun A-deildar sjóðsins. Er því gert ráð fyrir að skilyrði um lækkun starfshlutfalls eigi einnig við um þá.

Í öðru lagi er lagt til að hlutfall viðbótarréttinda við makalífeyri taki mið af starfshlutfalli hins látna sjóðfélaga þegar taka á hálfum lífeyri hófst en taki ekki mið af starfshlutfalli við andlát hans.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.