148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni áhuga á þessu máli og vangaveltur hans um kostnaðinn. Það kemur fram raunar í greinargerðinni með málinu að samkvæmt okkar mati á ekki að vera neinn kostnaðarauki af frumvarpinu vegna þess að að ekki er verið að fjölga rýmum í þetta tiltekna úrræði, ekki er lagt upp með það. Hins vegar erum við að fjölga hjúkrunarrýmum. Það er annað mál. Það varðar ekki þetta þingmál sérstaklega. Því er fundinn staður í nýrri fjármálaáætlun.

Ég vona að hv. þingmaður geti tekið undir það með mér að það er löngu tímabært að fjölga hér hjúkrunarrýmum. Ég vona jafnframt að þingmaðurinn sé mér sammála um að þau rými sem hér er verið að ræða um eigi að vera opin fólki óháð aldri. Það er þá fyrst og fremst byggt á faglegu mati á stöðu hvers og eins. Ég held að við ættum að geta verið sammála um það án þess að vera að fara í einhverja útúrsnúninga um þetta tiltekna mál, af því að ég held að það sé ekki af þeirri stærðargráðu að hv. þingmaður þurfi að reiða mjög hátt til höggs í því.