148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

lyfjalög.

427. mál
[16:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir jákvæðar undirtektir við málinu almennt. Hv. þingmaður spyr um lyfjamiðlara. Ég get ekki skýrt það betur en það sem segir um það í frumvarpinu og vænti þess að ef nefndin telur það ekki nægilega skýrt þurfi að kalla eftir því að hafa það með enn þá skýrari hætti. En að því er varðar spurninguna um aukið frjálslyndi og að lyfsala fari fram á fleiri stöðum en gert er ráð fyrir núna með því að opna fyrir lyfsölu á netinu er því til að svara að hér eru ekki lagðar til neinar slíkar breytingar.