148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

lyfjalög.

427. mál
[17:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kemur í máli hv. þingmanns að hér á landi eru tiltölulega stífar kröfur hvað varðar lyfsölu, en um leið erum við partur af Evrópska efnahagssvæðinu þar sem gilda náttúrlega ákveðnar grunnreglur um frjálsa för vöru. Þær reglur gilda hér að því er varðar þessa tegund vöru, þó með þeim takmörkunum sem eðlilegar eru í ljósi þess hvaða vöru er um að ræða, þ.e. það eru ekki hvaða lyf sem er á hvaða svæði sem er o.s.frv., heldur þarf að hafa skoðanir á því. Þar er öryggi neytenda, þeirra sem á lyfjunum þurfa að halda, haft í fyrirrúmi. Það eru þeir hagsmunir sem eru númer eitt hjá heilbrigðisyfirvöldum á hverjum stað, að gæta að þeim hagsmunum, þó að því gefnu að við séum að tryggja að þessar grundvallarreglur séu í heiðri hafðar sem snúast um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.