148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dómstólar o.fl.

442. mál
[18:21]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að víkja orðum að mínum athugasemdum eða spurningum. Við getum náttúrlega ekki treyst því að dómsmálaráðherrar framtíðarinnar verði jafn afdráttarlausir jafnréttissinnar og núverandi hæstv. dómsmálaráðherra. Eins og þetta kerfi gerir ráð fyrir, að þessir dómarar í þennan endurupptökurétt eða dómstól verði skipaðir, er engin spurning um hæfi þeirra, þeir eru allir hæfir til þess að vera dómarar á sínu dómstigi. Þess vegna eru þeir valdir.

Þess vegna hlýt ég að ítreka spurningu mína: Er það ekki útgjaldalítið að hnykkja á því í þessum lögum einmitt vegna forsögunnar og einmitt vegna þess að við viljum jafna kynjahlutföll í dómstólunum? Ef sú staða verður uppi að þeir aðilar sem tilnefna geti ekki tilnefnt jafnt hlutfall karla og kvenna er það orðinn ómöguleiki fyrir ráðherrann að hafa jafnt kynjahlutfall. Þá gerir hann eins vel og hann getur með þau sjónarmið í huga. Væri það ekki útgjaldalítið þar sem þetta snýst ekki um hæfi? Af hverju ætti hæstv. dómsmálaráðherra ekki að geta unað því að hafa reglu sem segir: Gæta skal að því að hlutfall dómara í þessum dómstóli sé jafnt eða sem jafnast? Væri það ekki útgjaldalítið og væri það ekki bara góður endahnútur á umræðu um þetta mál og stimplar hæstv. dómsmálaráðherra inn sem sannan jafnréttissinna?