148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dómstólar o.fl.

442. mál
[18:26]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Mér er nú eiginlega óskiljanlegt af hverju hæstv. dómsmálaráðherra er svona treg í taumi. Auðvitað geta verið uppi alls konar ástæður. Það getur auðvitað líka verið þannig að nýtt réttarsvið komi þar sem væri mjög æskilegt að hafa dómara sem kynni einhver skil á því. Það vill bara þannig til að það er enginn slíkur dómari til í landinu. Hvorki karl né kona. Og hvað ætla menn að gera þá?

Þannig að mér finnst þetta satt að segja talsverður fyrirsláttur hjá hæstv. dómsmálaráðherra. Ég held að sagan segi okkur það ótvírætt þrátt fyrir allt, þrátt fyrir jafnréttislög og þrátt fyrir skýra skyldu að hallað hefur á konur. Það er nú hin einfalda staðreynd. Ég veit ekki alveg hvernig verður með rétt dómara í dómstól sem hefði sagt: Ja, ég hefði nú átt að vera í hópi þeirra sem tilnefndur var af þessum tiltekna dómstól og hæstv. ráðherra hefði átt á skipa mig. Hver eru réttarúrræði dómaraefnanna til þess að skjóta þá málum sínum til jafnréttisnefndar eða dómstóla eftir atvikum? Er ekki ágætt bara að hafa þetta skýrt og skorinort?