148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun.

484. mál
[18:44]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Með frumvarpinu er tilskipun Evrópusambandsins sama efnis innleidd í íslenska löggjöf. Tilskipunin tekur gildi nú í sumar og er í frumvarpinu lagt til að lögin taki gildi á sama tíma.

Með frumvarpi þessu er lögð til ný heildarlöggjöf um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun sem kemur í stað eldri laga um alferðir, nr. 80/1994. Með þeim lögum var eldri tilskipun um ferðapakka frá árinu 1990 innleidd í íslenskan rétt, en töluverðar breytingar hafa orðið á ferðamarkaði og viðskiptaháttum almennt frá þeim tíma sem kallað hefur í nokkurn tíma á uppfærslu og endurskoðun á þeim efnisreglum sem eldri tilskipunin fól í sér. Þessi endurskoðun á vettvangi Evrópusambandsins skilaði nýrri tilskipun sem samþykkt var árið 2015 og mun taka gildi nú í sumar, líkt og áður sagði.

Nýja tilskipunin er um margt ítarlegri en sú eldri og gildissvið hennar er rýmra. Upplýsingaskylda seljanda er aukin nokkuð í takt við aðrar nýlegar tilskipanir á sviði neytendaréttar. Reglur um réttindi ferðamanna, t.d. þegar einhverju er ábótavant við framkvæmd pakkaferðar eða þegar verðbreytingar verða, eru settar fram með mun ítarlegri hætti en gert var í eldri tilskipun. Þó er ekki um miklar efnisbreytingar að ræða og munu helstu meginreglur um réttindi ferðamanna sem gilt hafa samkvæmt eldri lögum vera áfram í gildi.

Vegna rýmri skilgreiningar á pakkaferðum munu fleiri ferðir falla undir gildissvið laganna en verið hefur samkvæmt eldri lögum. Það er því viðbúið að seljendur sem selt hafa ferðir sem hingað til hafa fallið utan gildissviðs eldri laga munu þurfa að aðlaga sig að efnisreglum þessara laga þar sem ferðirnar munu falla þar undir. Af því leiðir að þeir seljendur munu verða tryggingar- og leyfisskyldir, líkt og ég kem að hér síðar. Þetta mun óhjákvæmilega hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir þessa tilteknu seljendur. En á móti kemur að það mun hafa aukna neytendavernd í för með sér að fleiri njóti þeirra réttinda sem lögin kveða á um.

Nýja tilskipunin og frumvarpið munu hafa nokkur áhrif á innlenda aðila í ferðaþjónustu. Skipa má ferðaþjónustuaðilum sem frumvarpið snertir nokkurn veginn í tvo hópa. Annars vegar þá sem selja ferðir frá Íslandi til erlendra áfangastaða og hins vegar þá sem selja ferðir innan lands til erlendra ferðamanna sem hingað koma. Gera má ráð fyrir að rýmra gildissvið laganna muni hafa þau áhrif að fleiri aðilar sem selja ferðir innan lands muni falla undir reglur laganna og þurfi því að uppfylla ítarlegri upplýsingaskyldu en áður og verða jafnframt tryggingar- og leyfisskyldir. Sala pakkaferða hefur um langa hríð verið tryggingarskyld og jafnframt leyfisskyld. Svo verður áfram.

Lagt er upp með í frumvarpinu að fyrirkomulagi á tryggingarskyldu vegna sölu á pakkaferðum verði óbreytt. Rétt er að árétta að aðeins sala á pakkaferðum er tryggingarskyld og ber seljendum að aðskilja í bókhaldi sínu veltu vegna sölu á pakkaferðum annars vegar og sölu á annars konar þjónustu hins vegar því að það er aðeins sala á pakkaferðum sem myndar tryggingarskylda veltu.

Unnið hefur verið að því undanfarið í ráðuneytinu að leita leiða til að koma til móts við minni ferðaþjónustuaðila sem selja ferðir innan lands en aðferð við útreikning á fjárhæð tryggingar sem seljendur þurfa að reiða fram árlega getur reynst þessum minni aðilum erfiður. Jafnframt má gera ráð fyrir að þeim fjölgi vegna rýmra gildissviðs laganna. Í þeirri vinnu sem hefur verið í gangi í ráðuneytinu hefur verið horft til þess að taka inn í mat á fjárhæð tryggingar m.a. hversu langar ferðir eru seldar, hversu lengi seljandi heldur á fyrirframgreiðslum frá viðskiptavinum sínum, hver áfangastaður ferðar er með tilliti til kostnaðar við mögulegan heimflutning ferðamanna og annarra tengdra atriða. Tilskipunin veitir töluvert svigrúm við útfærslu tryggingarskyldunnar og er það mjög breytilegt hvaða leiðir eru farnar í þeim efnum. Ljóst er þó að velta af sölu pakkaferða mun alltaf vera stór þáttur í þeirri jöfnu sem leiðir til tryggingarfjárhæðarinnar. Þessari vinnu er ekki lokið í ráðuneytinu en hún mun halda áfram og vonandi verður hægt að kynna breytingar fyrir haghöfum á næstu misserum.

Frumvarpið var samið með aðstoð starfshóps sem í voru fulltrúar frá Ferðamálastofu og Neytendastofu auk ráðuneytisins. Við vinnslu frumvarpsins var haft að leiðarljósi að íþyngja ekki atvinnulífinu umfram það sem nauðsynlegt væri til að tilskipunin yrði innleidd með fullnægjandi hætti. Jafnframt var horft til þess að reglur laganna yrðu skýrar og ábyrgðarskipting væri skýr og réttindi ferðamanna sett fram með skýrum hætti. Með þau sjónarmið í huga var svigrúm til innleiðingar tilskipunarinnar metið á þann hátt að heimildir til að leggja auknar kröfur og ábyrgð á seljendur umfram efni tilskipunarinnar voru ekki nýttar. Er hér um hreina innleiðingu að ræða, svo það sé sömuleiðis sagt.

Eins og ég nefndi í framsöguræðu minni um frumvarp til laga um Ferðamálastofu er nauðsynlegt að breyta hugtakanotkun einnig í þeim lögum sem ætlað er að taka við af núgildandi lögum um skipan ferðamála vegna breyttrar hugtakanotkunar í nýju tilskipuninni. Þeir aðilar sem hafa hingað til haft ferðaskrifstofuleyfi og þar með leyfi til að selja pakkaferðir munu fá útgefið nýtt skipuleggjendaleyfi við gildistöku þeirra laga. Þeir sem hingað til hafa haft ferðaskipuleggjendaleyfi munu þurfa að meta framboð sitt af ferðum með tilliti til þess hvort þær ferðir falli undir gildissvið þessara laga. Þeir munu annaðhvort falla undir að vera ferðasali dagsferða ef ferðirnar fela ekki í sér pakkaferð eða samtengda ferðatilhögun eða falla undir að vera skipuleggjandi sem selur m.a. pakkaferðir.

Hæstv. forseti. Frumvarpinu sem ég hef hér mælt fyrir er ætlað að auka neytendavernd á sviði ferðamála, efla samkeppni og skýra þær reglur sem gilda um þær ferðir sem falla undir gildissvið þess. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið gangi til 2. umr. og til umfjöllunar hv. atvinnuveganefndar.