148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

ábúðarlög.

456. mál
[18:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 655, máli 456. Þar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á ábúðarlögum, nr. 80/2004. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Tilefni þessa frumvarps er ábending umboðsmanns Alþingis til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Í erindi umboðsmannsins var bent á skamman kærufrest samkvæmt 44. gr. laganna. Þótti umboðsmanni rétt að vekja athygli ráðuneytisins á þessu máli þar sem kærufrestur samkvæmt ákvæðum laganna byrjar að jafnaði að líða áður en aðila hefur verið tilkynnt um ákvörðun. Í kjölfarið var málið skoðað í ráðuneytinu og var niðurstaða þess sú að lagabreytingarnar væru þarfar. Helsta ástæða þess að breyta þarf lögunum er einkum sú að kveða þarf skýrt á um að kærufrestur hefjist þegar málsaðilum hefur verið birt niðurstaða úttektar.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á 42. og 44. gr. ábúðarlaga. Annars vegar er lagt til að kveðið verði skýrt á um að aðila verði tilkynnt svo fljótt sem auðið er um niðurstöðu úttektar. Hins vegar er lagt til að frestur til að krefjast yfirmats vegna úttektar byrji ekki að líða fyrr en málsaðila hefur verið birt niðurstaða úttektarinnar. Í gildandi lögum er miðað við 15 daga frest frá dagsetningu úttektar en í frumvarpinu er miðað sé við 15 daga frest frá því að málsaðila hefur verið birt niðurstaða úttektar.

Það verklag sem lagt er til með frumvarpinu, að kærufrestur hefjist þegar málsaðilum hefur verið birt niðurstaða úttektar, tryggir vandaðri stjórnsýslu en núverandi ástand gerir. Er því hér um nauðsynlegar breytingar að ræða að mínu mati.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa stutta og litla frumvarps, en vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir því, en þar er ítarlegar fjallað um efni þess.

Að lokinni umræðu hér legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.