148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

breyting á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.

457. mál
[19:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrirspurnina. Fyrst varðandi rekstrarleyfin og rökin fyrir því að lengja í tímanum eða gera þetta ótímabundið. Það hangir saman við það sem boðað er í frumvarpinu, að nú verði farið að taka gjald fyrir þau leyfi sem menn sækjast eftir að fá til að nýta og ala upp fisk í íslenskum sjó eða vatni. Fram til þessa hefur tíminn verið knappur, annars vegar tíu ár í starfsleyfum ef ég man rétt og hins vegar 16 ár í rekstrarleyfum. Ætlunin er núna að samræma þetta og hefja síðan gjaldtöku. Við vitum ekki hversu lengi fyrirtækið vill byggja sig upp eða vera lengi að störfum en gjaldtakan mun taka mið af því að þarna eru gefin út ótímabundin leyfi. Við erum að hefja undirbúning að smíði á því frumvarpi og getum vonandi komið fram með það í haust.

Spurt var um hvort fyrirtækin yrðu að fullnýta leyfin. Það eru forsendur fyrir útgáfu leyfanna sem ganga út frá því að ef þau nýta ekki leyfin til fulls verða heimildir teknar og boðnar öðrum til nýtingar. Hugsunin í þessu er ekki sú að menn geti setið á leyfi eins lengi og þeim dettur í hug eins og fyrirkomulagið er í dag.

Eftirlitið höfum við verið að styrkja. Ég kem kannski að því í mínu síðara andsvari. Það er full þörf á því að styrkja eftirlitið. Það er verið að skipta því upp núna í frumvarpinu á milli Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar. Umhverfisþættinum sem Matvælastofnun hafði áður eftirlit með er miklu betur fyrir komið hjá Umhverfisstofnun, að sú stofnun hafi eftirlit með þeim þætti máls.

Hvort okkur auðnast að koma þessu betur út á svæðin (Forseti hringir.) verður tíminn að leiða í ljós. Það er hins vegar alger forsenda í þessu frumvarpi að eftirlitskerfi með þessari atvinnustarfsemi verði styrkt til muna.