148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

breyting á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.

457. mál
[19:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi eftirlitsþáttinn er helst að segja að það kemur alveg til greina að einfalda það og styrkja á heimasvæði ef sá möguleiki er fyrir hendi. Ég bendi hins vegar á varðandi þá þætti sem settir hafa verið upp um fiskeldið að þar er mjög sérhæft eftirlit á sumum sviðum sem kann að vera illframkvæmanlegt að útvista eins og sagt er frá viðkomandi stofnunum. En ekki skal ég loka á þetta, alls ekki. Það er langur vegur frá. Ég er fylgjandi því að styrkja heilbrigðiseftirlitið sem mest á nærsvæði.

Ef ég man rétt er þetta atriði rætt að hluta til í frumvarpi um Matvælastofnun þar sem við opnum á samstarf hennar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Það tel ég raunar að þurfi að taka til mjög alvarlegrar umræðu með það að markmiði að sameina þetta eftirlit sem (Forseti hringir.) er sameiginlegt Matvælastofnun og heilbrigðisnefndum viðkomandi sveitarfélaga. Það er bráðnauðsynlegt að fara að gera gangskör í að taka það í nefið eins og sagt er.