148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

breyting á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.

457. mál
[20:02]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég kann ekki aðferðir til að halda í laxalúsina. Þetta er lítið kvikindi og vandmeðfarið en fjölgar sér mjög hratt. Það er hins vegar augljóst að alls staðar þar sem laxeldið er sett af stað í sjókvíum sprettur þessi óværa upp og skapar vandkvæði og hana ber að umgangast með fyllstu varúð. Norðmenn hafa lent í mjög miklum vandræðum með hana.

Það er örugglega hægt að þreifa sig áfram í átt til lausnar á því. Þar er t.d. mjög mikil þróun í lokuðum eldiskerjum. Ég kann ekki skil á því öllu, þar frá er langur vegur.

Ég nefndi auðlindagjaldið. Já, í tillögum sáttanefndar er þetta reifað sem hugmynd. Það gæti verið 15 kr. á kíló af laxi sem miðað við 67.000 tonna framleiðslu myndi skila á ári um 1 milljarði í gjald. Það eru þær hugmyndir sem voru uppi í þessari umræðu og verða ákveðinn útgangspunktur til að vinna með.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni, því fylgja barnasjúkdómar þegar verið er að taka svona stór stökk fram á við í að byggja upp ákveðna atvinnugrein. Bæði eru menn óþolinmóðir eftir að þetta sé afgreitt og ganga þá misjafnlega um, það er mikil eftirspurn, sérstaklega fyrir vestan og austan, eftir að þessari atvinnuuppbyggingu verði hraðað sem mest. Þetta eru allt saman fyllilega skiljanleg sjónarmið en ég ítreka engu að síður þá stefnumörkun sem kemur fram í þessu frumvarpi, að umgengnin við hina villtu stofna okkar verði sett í öndvegi þegar við grípum til aðgerða gagnvart uppbyggingu þessa atvinnuvegar. Ég tel að þetta tvennt (Forseti hringir.) geti farið mjög vel saman.