148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[20:22]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu breyting á lögum um stjórn fiskveiða, um strandveiðar. Ég tel mikilvægt á hverjum tíma að horfa á hvort möguleikar séu á að bæta löggjöfina, en eftir að hafa kynnt mér lítillega þær umsagnir sem borist hafa um frumvarpið hef ég verulegar efasemdir um að við séum á réttri leið. Áhyggjur margra frá smæstu byggðarlögunum og brothættu byggðunum, sem hafa treyst á þessa starfsemi síðustu tíu árin, lúta að því að útgerðir muni færast á milli svæða þannig að möguleikar ákveðinna landshluta, Norður- og Austurlands sér í lagi, til sömu hlutdeildar í heildaraflanum muni minnka frá því sem verið hefur. Ég vil því hvetja hv. atvinnuveganefnd til að fara mjög vel yfir málið og eftir að hafa farið yfir greinargerðina með frumvarpinu sakna ég þess að sjá eitthvert yfirlit yfir daga á sjó eftir svæðum eða afla eftir mánuðum milli svæða svo hægt sé að meta betur áhrifin, hvernig þau gætu komið mismunandi fram.

Ég vil spyrja framsögumann málsins hvort slíkt hafi komið fram fyrir nefndinni, hvort hún hafi farið yfir þannig upplýsingar nú þegar. Ef ekki að skora ég á nefndina að kalla eftir slíku.