148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[20:28]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Ég held að þetta séu óþarfaáhyggjur en ég skil alveg að sveitarstjórnir hafi sumar hverjar einhverjar áhyggjur af þessu. Það er ekkert sem segir að menn geti ekki róið áfram frá sínu svæði með því að hafa þessa 12 daga. Í nýlegri könnun í skýrslu frá Háskólanum á Akureyri kemur fram að yfir 75% þeirra sem stunda strandveiðar í þessu úrtaki vilja fasta daga og væru ánægðir með að fá fasta daga. Þá er ekki endilega verið að tala um, eins og menn hafa lagt upp með, ýtrustu kröfu um alla daga mánaðarins eða 16 virka daga. Heilt yfir er meiri hluti fyrir því að vilja þessa föstu daga. Þeir eru þá jafn góðir og slæmir eftir landshlutum. Fyrir norðan veiðist betur í ágúst, þá veiðist ekki eins vel fyrir vestan, svo fiskeríið jafnast út ef við tryggjum öllum 12 daga, líka í ágúst. Ég geng út frá því að við ætlum að gera það. Við að gera þessa tilraun er verið er að bæta hátt í 2 þús. tonnum í pottinn, sem munar um. Þetta er tilraun sem gerð verður í sumar. Við tökum svo stöðuna í framhaldinu strandveiðum til góða.