148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[20:32]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Heilt yfir hef ég séð í þeim umsögnum sem ég hef lesið að menn væru sáttir við þessa tilraun ef 12 dagarnir væru tryggðir öllum bátum út þetta sumar í hverjum mánuði fyrir sig. Við eigum að róa að því sameiginlega.

Ég er alveg inni á þessu með ufsann, hann hefur ekki náðst undanfarin ár. Verð á ufsa er mjög lágt, ég held 50–60 kr. kílóið sem menn hafa tekið í þorskígildum í þeim afla sem má taka inn á hverjum róðrardegi. Nú er boðið upp á að það verði utan þess afla en sem VS-afli. Þá verður ekki mikið til skiptanna, 12 kr. eða svo fyrir menn sem taka hann sem VS-afla, svo maður skilur alveg óánægju manna með að þurfa að koma með ufsann í land sem VS-afla og fá sáralítið fyrir hann. Það er samt skárra en að hann sé tekinn af því magni sem menn mega koma með í hverjum róðri.

Ég myndi vilja láta skoða þetta með vannýttan ufsa þegar sá kvóti sem mátt hefur taka undanfarin fiskveiðiár hefur ekki verið tekinn, að það verði horft til þess varðandi nýtinguna á ufsa. Ég held að við þurfum að skoða það í atvinnuveganefnd með ufsann sem meðafla. Ég get auðvitað ekki lofað neinu um það en ég er mjög velviljuð því að skoða hvernig hann verður meðhöndlaður í þessu öllu.