148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[20:37]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi sem viðleitni til að laga strandveiðarnar. Það kemur frá atvinnuveganefnd, sem er líka fagnaðarefni, að nefndir þingsins komi í auknum mæli og mæli fyrir málum. Ég fagna því sérstaklega.

En ég hef nokkrar spurningar og efasemdir að sjálfsögðu. Ég óska þess að nefndin fari vel yfir málið og hlusti á umsagnir og vil benda á nokkur atriði. Veðurlag er misjafnt eftir landshlutum og árstímum. Eins og í Vestmannaeyjum, þar er nú sjaldan hægt að fara út á trillu. Það gerir oft mjög þungt í sjóinn og þar eru fáir bátar. Veiðar eru mismunandi eftir svæðum. Afli ufsa er líka mismunandi eftir svæðum og árstímum.

Ég velti fyrir mér í fyrsta lagi einu: Væri ekki réttara að sjómenn fengju að veiða ufsa og þetta yrði reiknað þeim meira til tekna en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi? Að í stað þess að þeir fái einungis 20% í sinn hlut af ufsaaflanum komi þeir og vinni fiskinn, komi með hann í land næstum algerlega frítt fyrir ríkissjóð? Ég held að nefndin verði að skoða þetta sérstaklega.

Ég geri mér grein fyrir að þetta frumvarp er einungis til bráðabirgða en velti öðru fyrir mér. Ég sé ekki betur en að þetta verði ólympískt, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir. Ég held að í júlí, ágúst þegar heildaraflanum verði náð, verði þetta ólympískt. Og hvert fara menn þá? Þeir fara auðvitað á þau svæði þar sem veiðin er mest.