148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[20:40]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um ufsann. Ég tel að við gætum alveg skoðað það að mæta þeim sjónarmiðum þar sem ufsinn hefur ekki verið að nást, sá kvóti sem hefur verið undanfarin ár. Það er mjög uppsafnað þar. Ég hef mikinn skilning á því að í þessari tilraun mætti koma með ufsann fyrir utan þetta magn sem má veiða í hverjum róðri. Við megum ekki taka áhættuna á að menn láti ufsann frekar fara fyrir borð í stað þess að koma með hann í land fyrir litlar 12 kr. sem varla svarar kostnaði. Það er áhættan sem verið er að taka. Ég væri tilbúin að skoða það að minnsta kosti í þessari tilraun í sumar hvernig það myndi koma út.

En enn og aftur: Það sem ég les í gegnum allar þessar umsagnir er að sumir eru mjög ánægðir og hafa beðið eftir að hafa þennan sveigjanleika og tryggingu fyrir föstum dögum en aðrir óttast að dagarnir dugi ekki fyrir ágúst. Eins og hv. þingmaður segir, það er mismunandi fiskgengd eftir svæðum, við þekkjum það alveg, og við verðum að tryggja 12 daga líka þegar góð fiskigengd er og vel aflast í ágúst á þeim svæðum. Annað væri óréttlátt. Ég mun gera hvað ég get til þess að sýna fram á að það verði tryggt alla mánuði, 12 dagar á hvern bát. Annars er vissulega hætta á að áfram verði ólympískur andi í gangi. Við erum ekki að kalla eftir því. Við köllum eftir öryggi og sveigjanleika í þessu kerfi. Þá þurfum við í þessari tilraun til þess að meta strandveiðar til framtíðar að hafa fast land undir fótum með því að tryggja öllum 12 daga.