148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[20:57]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. ræðumanni fyrir ræðuna. Gott að heyra að hún er velviljuð gagnvart strandveiðum. Ég hef verið á þingi frá 2009 og hef verið með strandveiðum frá upphafi. Vinstri græn komu strandveiðum á, fyrst Steingrímur J. Sigfússon sem sjávarútvegsráðherra og síðar Jón Bjarnason. Þetta mál hlaut þegar á leið mikinn velvilja í landinu. Ekki voru allir jafn hrifnir af þessu fyrst en ég hef átt marga góða bandamenn á þingi sem vilja styrkja og efla strandveiðar. Þess vegna var mikið átak að ná öllu saman innan atvinnuveganefndar. Það var búið að vinna grunnvinnu áður en það gerðist svo það datt ekki alveg niður úr skýjunum á þeim fundi sem hv. þingmaður vísar til.

Hv. þm. Ásmundur Friðriksson vísar til þess að þessi tilraun var líka gerð í fyrra. Þá stóðum við hv. þm. Ásmundur Friðriksson fyrir henni. Það náðist ekki í gegn þá en dropinn holar steininn. Við sem erum að berjast fyrir öryggi og eflingu strandveiða í landinu vitum að við gleypum ekki fílinn í einum bita. Ég sé annmarka á þessu máli sem sýnir að þarna undir liggur ákveðin málamiðlun. En eins og ég hef lýst í máli mínu er fullur skilningur og vilji til þess að þessi tilraun verði marktæk með því að tryggja afla í öllum landshlutum, tryggja öllum bátum sem skrá sig til strandveiða 12 daga í mánuði hvar sem er á landinu. Þetta verður einn pottur og allir eiga að hafa sama rétt. Við erum að bæta þarna við hátt í 2.000 tonnum (Forseti hringir.) frá því í fyrra.