148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[21:02]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þessi umræða skilar því að við erum, held ég, öll sammála um að við ætlum að tryggja þessari tilraun í sumar það magn sem þarf til að tryggja 12 daga alls staðar. Þá verður ekkert kapphlaup á milli landsvæða. Það er mismunandi fiskigengd á milli landsvæða, við þekkjum það. Ef allur þessi litli bátafloti ætlar að fara að hringsóla í kringum allt landið eftir því hvar fiskigengd er gef ég ekki mikið fyrir öryggi sjómanna.

Menn vilja róa frá sínu heimasvæði númer eitt, tvö og þrjú. Ef þeir vita að þeim eru tryggðir 12 dagar í hverjum mánuði er þetta mismunandi fiskigengd eftir landsvæðum. Við þekkjum það öll sem þekkjum eitthvað til sjómennsku. Það er lélegra á A-svæði þegar líður á sumar. Júní og júlí er ágætur tími á A-svæði og ágúst er góður á Norður- og Austurlandi. Við þekkjum þetta allt.

Ég held að við ætlum öll að stefna að því hérna að tryggja þessu máli það aflamagn sem þarf til. Í svari ráðherra kom fram að miðað við síðasta sumar, fjölda báta og það magn sem var til ráðstöfunar þá hefði þurft 10.270 tonn til að tryggja 12 daga. Nú erum við að tala um 11.200 tonn og þar er auðvitað borð fyrir báru.

Ég skil fullkomlega ótta manna við að það gæti ýtt undir ólympískar veiðar. Þess vegna treysti ég því að við, hvar í flokki sem við erum, tryggjum að þessi tilraun gangi ekki út á eitthvert ólympískt kapphlaup og óvissu um ágúst heldur tryggjum við að afli verði tryggður fyrir 12 daga alls (Forseti hringir.) staðar á landinu fyrir alla báta.