148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[21:11]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta svar. Ég er nú ekki alveg viss um að hv. þingmaður hafi reiknað þetta út, að þetta dugi ekki, gefandi sér samt sem áður að það verði róið alla dagana. Ég vil trúa því sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður atvinnuveganefndar sagði hér ítrekað áðan, að þetta væri tryggt. Hún hlýtur að hafa eitthvað fyrir sér í því.

Ég er samþykkur því að gera þessa tilraun og sjá hvað kemur út úr henni. Ég óttast ekki að þetta verði alger bylting og kerfið sé í uppnámi. Ég er búinn að skoða það þannig. Ég hef mínar efasemdir en óttast ekki að kerfið sé í uppnámi. Við getum skoðað þetta betur í nefndinni eftir þessa umræðu og vonandi gert einhverjar breytingar eins og ég kom inn á áðan með ufsann og fleira og kannski þessa kröfu Landssambands smábátaeiganda. En landssambandið lýsir samt sem áður yfir ánægju sinni með frumvarpið þó að það lýsi líka yfir áhyggjum. Ég túlka það á þann hátt, eins og ég hugsa það. Ég hef því ekki þessar stóru áhyggjur sem hv. þingmaður hefur.