148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[21:12]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég vil líka gera þessa tilraun. Ég held að það vilji allir gera þessa tilraun. Ég efast ekki um góðan ásetning. En ég held að það sé kannski ekki nægjanlegur skilningur á þeim áhrifum og afleiðingum sem þetta heildaraflamagn hefur. Og upplýsingarnar sem hv. þingmaður spurði um áðan varðandi dagafjölda á svæði í strandveiðum, ég er með þær. Fæstu dagarnir, flestu stoppin, hafa verið á svæði A af því að það er stærst. Þess vegna, ef þeir fá svona miklu fleiri daga trygga og veiða þá í upphafi tímabilsins, fer bara miklu stærri hluti af aflanum. Smábátasjómenn á svæðum B, C og D hafa flestir getað fullnýtt sína daga, þar er minni afli, eiginlega aldrei stopp og þeir hafa getað fullnýtt dagana. Sérstaklega á svæði D. Ef þetta verður með hámarki þannig að fræðilega séð er hægt að stoppa í júlí, sjá þeir þetta sem tilfærslu á dögum sem þeir hafa nú þegar til svæðis A. Þeir eru þess vegna mjög óánægðir. Þeir sjá þetta sem skerðingu á sínum hlut til að fara annað. Þeir, alla vega nokkrir, hafa sagt við mig að þeir vilji þá miklu frekar að þessi viðbótar 2.000 tonn fari bara á A-svæðið. (Forseti hringir.) Það sé hreinlegra. Þeir fái að veiða bara sína daga í friði á B, C og D.

(Forseti hringir.) En ég vil gera þessa tilraun. Ég vil hreint sóknarmark. Þetta er bara ekki það.