148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á þessu frumvarpi. Ég hyggst taka hér til máls með stutta ræðu á eftir, en langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra út í fjármögnun á Íslandsstofu.

Það sem er aðeins að trufla mig í þessu öllu saman er að svo virðist sem ekki hafi tekist, að mínum dómi, að skýra fjármögnun stofnunarinnar með nógu skýrum hætti, þ.e. að áfram er gert ráð fyrir því að fjármunir til reksturs komi frá markaðsgjaldi, utanríkisráðuneyti, atvinnuvegaráðuneyti og menningar- og menntamálaráðuneyti, ef ég man þetta rétt.

Ég velti því upp og spyr ráðherra hvort ekki hafi verið hægt að komast hjá því að fara í þennan flókna þjónustusamning — sem er nú reyndar ekkert auðvelt að nálgast, ég þurfti að afrita hlekkinn aftan á þessu til að finna þetta á netinu — með því einfaldlega að færa þessa fjármuni. Í þjónustusamningnum eru taldir upp fjárlagaliðir sem eiga að renna til Íslandsstofu. Hefði ekki verið einfaldara að færa hreinlega þessi verkefni og þessa fjármuni til utanríkisráðuneytisins þannig að ekki væri um þennan tví- eða þríverknað að ræða, eða hvað við köllum það, að ekki væri þetta flókna samband. Það hefði alveg mátt koma sérfræðiáliti eða hagsmunum og því sem skiptir máli í þessum ráðuneytum fyrir með einhverjum öðrum hætti. Þeir eiga reyndar sæti í útflutnings- og markaðsráðinu þessir aðilar. Ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði mátt einfalda þetta.

Að öðru leyti ætla ég að koma inn á þetta í ræðu minni síðar í dag.