148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:39]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra yfirferðina um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Íslandsstofu. Ég er sammála því að þar er margt gott og mikilvægt er að vinna markvisst að markaðssetningu Íslands. Ég hef hins vegar kannski ekki mjög mikla þekkingu á þessu máli sem slíku, en það eru ákveðnar bjöllur eða viðvörunarljós sem blikka.

Í gær fór fram sérstök umræða um dreifingu ferðamanna um landið. Þar kom ítrekað fram í máli ferðamála-, iðnaðar- og atvinnuvegaráðherra að markaðsstofur landshlutanna gætu ekki án Íslandsstofu verið og Íslandsstofa engan veginn án þeirra verið. Eftir að hafa lesið frumvarpið, sem við ræðum, sé ég ekki að það sé neinn skýr farvegur og í rauninni bara frekar langsótt að finna farveg fyrir samstarf þessara aðila þannig að það geti orðið markvisst.

Fyrr í dag var mælt fyrir frumvarpi til laga um Ferðamálastofu þar sem innlend markaðssetning er í rauninni að hverfa út úr hlutverki Ferðamálastofu og færast til Íslandsstofu og markaðsstofanna. Það er eitthvað í púsluspilinu sem fellur ekki þarna saman, hvorki út frá þeirri umræðu sem fór fram í gær né heldur umræðu sem fór fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrr á þessu þingi og sneri einmitt að þessum sömu málum. Það vantar þarna heildarsýn.

Spurningin er: Hvaða úrræði sér hæstv. ráðherra til þess að koma á einhverjum leiðum þarna á milli?