148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að dreifing ferðamanna um landið er mjög mikilvæg.

Þegar við tölum um útflutning á Íslandi þá er það náttúrlega líka nátengt landsbyggðinni. Við höfum svo sem litið á útflutning meira eins og við værum að flytja út hefðbundna vöru, fisk og iðnaðarvöru, en stærsti útflutningurinn okkar er í rauninni að flytja ferðamenn inn til landsins. Við höfum séð þá gríðarlegu byltingu þegar kemur að landsbyggðinni hvað þjónustuframboðið hefur aukist sem hefur nýst bæði ferðamönnum og líka þeim sem þar búa og svo auðvitað okkur sem erum ferðamenn í okkar eigin landi.

Stóra hugmyndin á bak við þetta er að við séum að vinna saman, því að við eigum öll hagsmuna að gæta. Órjúfanlegur hluti í því er að dreifa ferðamönnum á fleiri staði en bara suðvesturhornið. Það er algjörlega órjúfanlegur hluti. En ég held að erfitt sé að skrifa slíkt inn í lagatexta, enda gengur þetta mikið út á það að við séum með þjónustusamninga, að gera ákveðin verkefni þar sem árangurinn er mælanlegur, þ.e. við séum ekki að fara í verkefni, setja mikla peninga og segja bara þegar spurt er: Það gekk alveg ljómandi.

Við þurfum að vita það að ef við förum í verkefni, sem við örugglega gerum, að ýta þarf undir það að ferðamenn fari víðs vegar um landið. Þá þurfum við líka að mæla hverju það hefur skilað. Ef það gengur vel höldum við áfram, ef gengur ekki nógu vel þurfum við að nýta aðrar aðferðir.

Stóra hugmyndin á bak við þetta er, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson fór ágætlega yfir það enda þekkir hann það frá sínum fyrri störfum, að við náum núna saman um það að allir séu að vinna saman. Við erum komin með vettvanginn þar sem allir geta unnið saman. Ég skil mætavel sjónarmið hv. þingmanns þegar kemur að dreifingu ferðamanna um landið. Það er bara eitt af þeim málum sem Íslandsstofa í samvinnu við aðra aðila þarf að vinna að.