148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:43]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og er sérstaklega ánægð að heyra að það sé ætlað hlutverk Íslandsstofu að taka þátt í að kynna landshlutana þannig að ferðamenn dreifist um landið, því að það er auðvitað einn liður í því að viðhalda eftirspurn eftir landinu og finna enn fleiri markhópa til að sækja landið heim.

En ég velti líka aðeins fyrir mér fjármögnuninni, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði sem talaði hér á undan. Það sem ég stoppaði við var í rauninni að markaðsgjald sé hluti af tryggingagjaldsstofni. Ég hef bara ekki þekkingu á því hvað markaðsgjald er. Er það innifalið í tryggingagjaldinu eða er það sérstaklega innheimt af sama stofni? Eru það þá allir launagreiðendur sem taka þátt í þeim kostnaði?