148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta svokallaða markaðsgjald á sér nokkuð langa sögu og hún er tilgreind í greinargerðinni og er svolítið merkileg. Ég ætla ekki að rekja hana alla núna, bæði man ég hana ekki alveg, skal bara viðurkenna það þó að ég hafi lesið hana og kynnt mér hana ágætlega, þá ætla ég ekki að fara í hana núna, fyrir utan það að of stuttur tími er til þess. En þetta er í rauninni og alla jafna er þetta talinn partur af tryggingagjaldinu. Þessi gjaldstofn byrjaði þótt hann væri ekki útbreiddur þegar við gengum í EFTA, ef ég man rétt, á sínum tíma til þess að hjálpa til við að selja aðallega vörur þá, en síðan þjónustu líka í tilkomu þess að við vorum að fá aukna samkeppni hér innan lands. Þannig er tekjustofninn til kominn og góð samstaða hefur verið milli aðila atvinnulífsins og stjórnvalda að fara þá leið til að fjármagna þessa starfsemi.