148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:46]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til þess að forvitnast hjá hæstv. utanríkisráðherra um þetta mál sem er að mörgu leyti athyglisvert og sjálfsagt rétt og skylt að reyna að færa þessi mál í betra horf.

Ég velti fyrir mér ástæðunni fyrir því að það er valið að búa til sjálfseignarstofnun. Sjálfseignarstofnanir eru svolítið skrýtin fyrirbæri. Stundum tala menn um fé án hirðis þegar svona stofnanir fara að lifa sjálfstæðu lífi. Ég skil ástæðurnar fyrir því að menn vilja ekki hafa þetta fyrir ríkisstofnun, ekki hafa þetta fyrir stjórnsýslustofnun, ég skil það og þær ástæður sem liggja þar að baki, en það eru aðrar leiðir færir. Það er t.d. hægt að hafa þetta í formi opinbers hlutafélags. Það er líka hægt að hafa þetta í formi einkahlutafélags sem er ekki rekið í hagnaðarskyni. Um það eru alls konar dæmi. Til dæmis er Tækniskólinn rekinn af hlutafélagi sem ekki er rekið í hagnaðarskyni og vissulega gerir það rekstrarfélag þjónustusamning við ríkið um skólahaldið. Ég velti fyrir mér af hverju þessi leið er farin, hvort hinar leiðirnar hafi ekki verið skoðaðar. Ég held að að mörgu leyti væri heppilegra að fara slíkar leiðir.

Síðan er annað hérna sem ég vildi tæpa á, það er að menn eru að undanskilja sjálfseignarstofnunina tilteknum lögum, m.a. samkeppnislögum. Ein ástæðan fyrir því er sögð sú að starfsemi stofnunarinnar sé eingöngu ætlað að hafa áhrif erlendis. Það má vel vera að markaðsstarfið sé erlendis, en áhrifin verða öll hér innan lands vegna þess að tilgangurinn með þessu öllu saman er væntanlega að færa verkefni inn til landsins. Þannig að ég átta mig (Forseti hringir.) nú ekki alveg á þessari röksemdafærslu.

Svo kannski í síðasta lagi það sem snýr (Forseti hringir.) að — nú hringir forseti bjöllunni ótt og títt, ég er að hugsa um að stoppa hér, en fæ kannski að bæta við í seinna andsvari.

(Forseti (BHar): Forseti þakkar hv. þingmanni fyrir að stoppa og virða tímamörkin.)