148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi óþarfa áhyggjur. Stóra málið er að menn hafa kallað eftir því að við sem þjóð og það þýðir líka atvinnulífið og opinberir aðilar sameinumst um það hvernig við ætlum að kynna Ísland og hvað við ætlum að leggja áherslu á og það sé breið sátt um það. Mér finnst t.d. augljóst að við ættum að leggja áherslu á sjálfbærni, náttúru, gæði og ýmislegt annað, en það er eitthvað sem er mjög mikilvægt að breið sátt sé um og sé það sem við kynnum út á við. Síðan erum við með tækið Íslandsstofu sem er samstarfsvettvangur opinberra aðila og einkaaðila. Til þess að við náum sem bestum árangri þá er skynsamlegt að það sé eins skýrt og getur orðið í hvaða verkefni við förum, á hvaða svæði fyrir sig, það séu mælanleg markmið með þeirri starfsemi og við getum þá metið hvernig til tekst í hverju tilfelli fyrir sig. Ef það gengur vel þá framlengjum við og höldum áfram, ef gengur ekki nógu vel og við náum ekki tilætluðum árangri þá skiptum við (Forseti hringir.) um kúrs.

Ég get ekki lengur á þessari mínútu farið nákvæmlega í þetta sem ég reyndi að fara yfir í framsöguræðu minni, en ég þarf kannski að fara betur yfir þetta á eftir þannig að öllum verði þetta ljóst.