148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa framsöguræðu hæstv. ráðherra og umræðurnar í andmælunum. Þetta er mjög áhugavert mál og ég vil byrja á að fagna því að verið sé að setja í ákveðnar skorður og efla og setja metnað í samstarf atvinnulífsins og hins opinbera í þessu máli. Ég sit ekki í utanríkismálanefnd. En það eru nokkur atriði sem vekja hjá mér spurningar og vangaveltur. Ég vonast til að orð mín rati annaðhvort til hv. formanns utanríkismálanefndar, sem situr hér í salnum, eða hæstv. ráðherra.

Það er kannski fyrst þetta sem varðar breytingu á stjórninni eins og þegar hefur komið fram. Það er verið að hverfa frá því að vera með sjö manna stjórn, þar sem ráðherra skipar meiri hluta, í fimm manna stjórn, þar sem Samtök atvinnulífsins eru með meiri hluta. Það er vissulega verið að skipa þetta útflutnings- og markaðsráð þar sem ráðherrar hafa meirihlutaskipanir. En það er ekki bara það. Þegar maður horfir á þetta og hugsar um hlutverk fagráðuneyta og síðan utanríkisráðuneytis, sem er til aðstoðar faglegum aðilum varðandi þessi viðskipti, þá erum við að fara frá því að í stjórninni séu fulltrúar fagráðuneytanna. Það eru bara fulltrúar utanríkisráðuneytisins þar, það er verið að snúa þessu við. Ég hefði áhuga á að fram færi umræða um hvers vegna málunum væri þannig háttað, af hverju þessi breyting er.

Það er annað sem vakti athygli mína. Það er umræðan um að við þessa breytingu sé starfsemi Íslandsstofu undanskilin samkeppnislögum. Samkvæmt því sem ég best veit myndu reglur EES um ríkisaðstoð alltaf eiga við. Starfsemin yrði eftir sem áður að standast kröfur um að opinber ívilnun eða fjárframlög raski ekki samkeppni innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þessar breytingar á rekstrarformi yfir í einkarekstrarlegt eðli leiða þetta af sér enda er þá ekki lengur um lögbundið hlutverk opinberrar stofnunar að ræða. Hverju erum við þá að ná fram með þessu? Við erum jú að tala hér um utanríkisviðskipti.

Stærsta málið, sem ég myndi vilja drepa á hér og er að velta fyrir mér, lýtur að þessu, að það er verið að falla frá því að Ríkisendurskoðun annist árlega endurskoðun reikninga stofunnar við þessa breytingu yfir í sjálfseignarstofnun. En stofnunin er samt sem áður fjármögnuð af ríkinu. Árið 2009 þegar frumvarp til laga um Íslandsstofu, sem varð síðan að þeim lögum sem nú gilda, var til umfjöllunar hér á þingi birti Ríkisendurskoðun skýrslu um útflutningsaðstoð og landkynningu þar sem kom fram að brýnt væri að staða Íslandsstofu innan stjórnkerfisins væri skýrð betur, ekki síst í ljósi þess að Íslandsstofa mun bera ábyrgð á að ráðstafa umtalsverðu opinberu fjármagni. Mig vantar nánari útskýringu. Með því að gera stofuna að sjálfseignarstofnun er verið að undanskilja hana stjórnsýslulögum og þar með ábyrgð en hún fær samt sem áður þessar opinberu tekjur áfram. Það er verið að búa til sjálfseignarstofnun. Óvíst er hvort þingið geti hlutast til um breytingar á skipulagi hennar lengur ef stjórn stofunnar er ekki samþykk þeim, og við erum að tala um að meiri hluta stjórnar eða Samtök atvinnulífsins; stofnunin er með sjálfstæðan fjárhag en þiggur sitt rekstrarfé frá hinu opinbera og lög sem ætlað er að hafa eftirlit með meðferð opinbers fjár gilda ekki um stofnunina. Ég átta mig ekki alveg á því hvar við getum gripið inn í, við sem erum að gæta þess hvernig farið er með fjármunina. Og það er ástæða fyrir því að ég kem ekki upp í stutt andsvör af því að ég þurfti meiri tíma. En mig langar eiginlega bara til að kalla eftir því að fjallað verði um þetta, þetta verði tekið áfram og skýrt betur. Því þetta er viðkvæmt mál. Við erum öll, held ég, á einu máli um að við viljum veg þessarar starfsemi sem mestan og gætum hér allra sameiginlegra hagsmuna. Það þarf að vera hafið yfir allan vafa að það er það sem verið er að gera með þessu, að það séu engin göt inni á milli. Okkar ábyrgð er slík.