148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu þar sem hún fer yfir þessa hluti. Það er mjög eðlilegt að spyrja þessara spurninga og annarra sem við málið koma. Varðandi stjórnarfyrirkomulagið þá eru menn að byggja á þeirri reynslu sem hefur verið af Íslandsstofu núna. Hv. þingmaður vísaði til aðila sem ættu að koma að þessu. Um það má segja: Þess vegna er útflutnings- og markaðsráðið byggt upp með þessum hætti, þannig að allir fulltrúar, auk þeirra fagráðuneyta sem þar eru, eigi fulltrúa sína í þessu. Þetta eru 29 manns. Það er verið að líta til fordæma, vísað er sérstaklega til Vísindaráðs í greinargerðinni. Það er fyrirkomulag sem eftir því sem ég best veit hefur gengið vel. Það er hugsunin að þessir aðilar verði allir að koma að borðinu ef ná á sátt um það hvernig við kynnum Ísland á erlendri grundu.

Það er alls ekki markmiðið með þessu að erfitt verði að fylgjast með því hvernig farið er með opinbert fé. Í það minnsta er þarna um að ræða samstarf atvinnulífsins og opinberra aðila. Þó að menn líti á markaðsgjaldið með þeim hætti sem túlkunin hefur verið og samstaða hefur verið um, að það sé ákveðið gjald sem sátt sé um milli atvinnulífsins og ríkisins að innheimta til að fjármagna þetta, þá breytir það því ekki að við ætlum ekkert að gefa neinn afslátt á að hafa eftirlit með því að vel sé farið með fé.

Hv. þingmaður spyr af hverju Ríkisendurskoðun sé ekki falið að sjá um þetta. Ég ætla að vera hreinskilinn með það að ég er bara ekki alveg viss um af hverju það er. Það er búið að fara í gegnum ýmsa þætti þarna. Ég treysti því að farið sé yfir þessa þætti í hv. utanríkismálanefnd og það skoðað.