148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[22:02]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma upp og leggja orð í belg til að skýra málin. Hann lauk máli sínu á því að vísa málinu til utanríkismálanefndar, að hún skýri ákveðið mál. Ég er sammála því og þakka þá brýningu.

Spurning mín í upphafi hvað varðar útflutnings- og markaðsráðið, þar sem þessi fagráðuneyti eru með fulltrúa, versus stjórnina snýst um hlutverk. Það er stjórnin sem ber ábyrgð á undirbúningi tillögu að langtímastefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir útflutning sem er ætlað að stuðla að auknum útflutningstekjum, hagvexti og slíku, meðan ráðið er meira í því stærra batteríi að samþykkja og fylgjast með framkvæmd. Það er spurning af hverju það er þar inni sem fagráðuneytin eru með sína fulltrúa en ekki stjórnin og af hverju hlutföll stjórnarinnar liggja eins og þau liggja.

En hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir þetta. Ég er þá alla vega búin að vekja máls á þeim atriðum sem mér þóttu athyglisverð við fyrstu sýn. Ég segi eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hér áðan, að ég var of sein að átta mig á því að hlekkur á þessa þjónustusamninga og annað væri í frumvarpinu. Ég fæ kannski að taka snúning á því seinna þegar málið kemur til 2. umr.