148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[22:06]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka aftur hæstv. ráðherra fyrir að fara yfir málin. Ég er algerlega sammála honum í því að fátt sé mikilvægara, þegar um er að ræða útdeilingu á opinberu fé sem ætlað er til ákveðinna verkefna, en að settir séu mælikvarðar á aðgerðir og hægt sé að meta árangurinn. Það er engin spurning. Ég styð hann fyllilega í þeirri viðleitni.

Hins vegar er það eiginlega lokapunkturinn í þessu að þetta eru gríðarlegir fjármunir. Ég held að ég fari rétt með ef litið er til ársreiknings Íslandsstofu 2016 að veltan eða tekjurnar séu 1,2 milljarðar; það skiptist á einhvern hátt niður. Það er verið að breyta hér rekstrarformi sem gerir að verkum að lög, sem ætlað er að hafa eftirlit með meðferð opinbers fjár, gilda ekki lengur. Stjórnin er skipuð fimm mönnum og meiri hlutinn er úr atvinnulífinu en ekki pólitískt skipaður. Það er spurning um að við séum ekki að gleyma því að við berum ábyrgð á þessu, að við förum vel og vandlega yfir þá hluti. Ég lýk þessu með því að taka undir með hæstv. ráðherra sem treystir því að utanríkismálanefnd fari vel yfir málið. Ég hlakka til framhalds þessa máls.