148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[22:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom að hér í andsvörum við hæstv. ráðherra þá er ég ánægður með að þetta mál sé komið fyrir þingið. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra og kemur fram í greinargerð þá á málið sér nokkurn aðdraganda og var töluvert í vinnslu í ráðuneytinu meðan ég sat þar.

Mig langar að nefna að það er mjög mikilvægt þegar við erum að fjalla um málefni eins og þetta þar sem saman kemur ríkisvaldið og einkageirinn að það sé hlustað vel eftir áherslum einkageirans, ekki síst. Það var vitanlega gert. Vil ég nota tækifærið hér og þakka Magnúsi Bjarnasyni sem fór í þetta verkefni fyrir mig á sínum tíma fyrir hans vinnu þótt nokkuð sé um liðið. Það er nú einu sinni þannig að ekki næst að klára allt á tíma ráðherrans sem situr þannig að ég er mjög ánægður með að málið skuli rata hér inn og sé í stóru myndinni eins og lagt var upp með.

Ég ætla hins vegar að velta upp tveimur, þremur hlutum. Í fyrsta lagi er ég aðeins að velta fyrir mér, við munum ræða það að sjálfsögðu nánar í utanríkismálanefnd, 2. gr. frumvarpsins og svo 4. gr. Í 2. gr. er talað um útflutnings- og markaðsráðið, í 4. gr. er talað um stjórn Íslandsstofu.

Í 2. gr. um útflutnings- og markaðsráð segir, með leyfi forseta:

„Hlutverk ráðsins er að marka, samþykkja og fylgjast með framkvæmd á langtímastefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir markaðssetningu og útflutning.“

Í 4. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Stjórn Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, skal vinna tillögu að langtímastefnu stjórnvalda og atvinnulífs fyrir útflutning …“

Eflaust eru ekkert árekstrar á milli þessarar hugtakanotkunar, við þurfum hins vegar að skýra þetta þannig að það sé alveg ljóst við hvað er átt í hvorri lagagrein, þannig að útflutnings- og markaðsráðið og stjórnin skilji hvor sitt hlutverk með réttum hætti.

Það segir í 2. gr., með leyfi forseta:

„Ráðið skal taka til umfjöllunar tillögur að verkefnum …“

Ég velti fyrir mér hvort þessar tillögur að verkefnum séu tillögur sem koma frá stjórn eða bara utan úr bæ sem eru, eins og hér kemur fram, unnar í samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda. Þetta er eitthvað sem við einfaldlega skýrum í nefndinni.

Ég ætla að koma aftur inn á fjármagnið. Ég ætla nú að leyfa mér að fara hér með tölur sem ég er ekkert viss um að séu réttar hjá mér, það verður bara að hafa það. Einhvern tímann var ég að skoða þessa hluti fyrir löngu síðan, þá minnir mig að Malta hafi haft u.þ.b. 50 manns í því að selja fjárfestum Möltu, þ.e. gera það sama og fjárfestingarsvið Íslandsstofu er að gera í dag, ég held að þeir séu þrír eða fjórir starfsmenn á því sviði hjá Íslandsstofu. Maður veltir fyrir sér hvort við séum að horfa nógu langt fram í tímann.

Ég hefði gjarnan viljað sjá að í þessum nýju lögum væri tekið fastar á fjármögnuninni með einhverjum hætti, en ég er ekki kominn með lausnina hér. Ég held að það þurfi miklu meiri fjármuni inn í Íslandsstofu til þess að undirbúa framtíðina, undirbúa hvar við erum eftir tíu eða tuttugu ár. Við þurfum að horfa svo langt fram í tímann þegar við erum að markaðssetja eða reyna að fá fjárfesta og efla atvinnulífið á Íslandi. Við getum ekki verið að hlaupa frá degi til dags og slökkva elda. Við höfum séð Íslandsstofu koma með beiðni inn til fjárlaganefndar um 50 milljónir og hitt og þetta. Við þurfum bara að tryggja að það séu nægir fjármunir í þau verkefni sem þarna eru og bíða okkar.

Ég ítreka því það sem ég sagði áðan að í fyrsta lagi hefði ég haldið, kannski er auðvelt að segja það úr þessum stól, að við hefðum átt að ganga alla leið með að tryggja þá fjármuni sem eru í öðrum ráðuneytum beint til utanríkisráðuneytisins og beint inn í Íslandsstofu eða sjálfseignarstofnun og þessi verkefni, vera ekkert með þessa samninga sem milliliði.

Í öðru lagi held ég að það þurfi að fara með atvinnulífinu saman í það að sækja aukna fjármuni til atvinnulífsins og einnig ríkisins til þess að fjármunir sem Íslandsstofa hefur verði stórauknir.

Síðan í þriðja lagi held ég að sé mikilvægt að skýra eitt atriði, ég ætla að leyfa mér að túlka það hér. Hér stendur í 6. gr. að markaðsgjald, 0,05%, skuli lagt á gjaldstofn. Ég fletti því upp í lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, og til að taka af allan vafa þá skil ég þetta þannig að þó svo að við förum í það að lækka tryggingagjaldið þá breytist þessi gjaldstofn ekki, þ.e. þetta 0,05% gjald sem Íslandsstofa fær af þessum gjaldstofni breytist ekkert þótt við lækkum tryggingagjaldið því gjaldstofninn er alltaf sá sami. Hins vegar lækkar tryggingagjaldsprósentan vonandi einhvern tímann ef þessi ríkisstjórn tekur sig saman í andlitinu, hún lækkar væntanlega, en áfram verður gjaldstofn til staðar fyrir Íslandsstofu.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta. Þetta fer að sjálfsögðu til umfjöllunar í utanríkismálanefnd. Þar þurfum við að taka til skoðunar fjármögnunina að því er mér finnst. Við þurfum að sjálfsögðu að hlusta eftir öðrum athugasemdum sem hér hafa komið fram. Í heildina litið tel ég að þetta frumvarp sé gott. Það er mjög mikilvægt að skýra stöðu Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, eins og lagt er upp með þetta hér. Ég held að það sé reyndar prýðisfyrirkomulag. Við þurfum að skýra þetta. Við þurfum að gera stofnunina þannig að hún geti sótt fram af miklum krafti, bæði hvernig hún er byggð upp og eins varðandi fjármuni og annað.