148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[22:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir hans ræðu og yfirferð enda hefur hann reynslu úr þessu ráðuneyti sem vert er að taka eftir og hlusta á og hefur komið að þessum málum áður.

Ég er sammála því að það er margt mjög gott í þessu frumvarpi. Það er verið að taka margt áfram varðandi markaðssetningu Íslands, en ég kem að því í minni ræðu hér á eftir hvað það er nákvæmlega sem ég hef ákveðnar efasemdir um. Mín fyrsta spurning sem beinist að hv. þingmanni snýst um það að við erum alltaf að reyna að læra af reynslunni. Ég verð að segja að við fyrstu yfirsýn og yfirlestur á frumvarpinu þá finnst mér ábyrgðarhlutverkið ekki vera nægilega skilgreint. Það er innheimt gjald og það er sagt alveg skýrt í frumvarpinu að það er ekkert sem mun falla á ríkissjóð, engar fjárhagslegar skuldbindingar, útgjöld, vinnuframlag, stjórnsýslukostnaður, eftirlitsskylda, rannsóknir eða önnur útgjöld leiða af samþykkt frumvarpsins. Gott og vel.

Engu að síður erum við að fara í það að samþykkja hugsanlega þessa rammalöggjöf. Ég velti því fyrir mér: Af hverju er ekki bara atvinnulífið sjálft með þetta? Gjaldið kemur þaðan. Af hverju er ríkisvaldið að blanda sér inn í þetta með þessum hætti? Það má hugsa sér að ríkið sé í rauninni einhvern veginn innheimtustofnun fyrir atvinnulífið til þess að koma þessari stofnun af stað. Er ekki betra að hafa þetta alveg skýrt, markaðsgjaldið fari þá til einhvers verkefnis eða stofnunar sem atvinnulífið algjörlega sér um, eða að þetta verði opinber stofnun með því eftirliti sem því fylgir með Ríkisendurskoðun? Þetta er alveg eins og með Fæðingarorlofssjóð, sem er fjármagnaður með tryggingagjaldi fyrirtækjanna. Auðvitað lýtur sá sjóður eftirliti hins opinbera.

Ég held að það verði að vera skýrt hvert ábyrgðarhlutverkið er um leið og ég segi að það er mikilvægt að við reynum að ramma inn markaðssetningu Íslands mun ákveðnar en verið hefur. Það er tími til kominn að við förum á næsta stig.

En spurning mín til hv. þingmanns er: Er ábyrgðarhlutverkið nægilega skýrt í samræmi (Forseti hringir.) við fjármögnunarhlutverk Íslandsstofu?