148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[22:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja að þetta frumvarp kemur ekki í veg fyrir togstreitu milli ráðuneyta, það held ég að sé alveg ljóst. Ég held hins vegar að ef aurahliðin hefði verið svolítið skýrari þá hefði það kannski minnkað togstreituna. En auðvitað er markmiðið með frumvarpinu að einfalda og reyna að sameina þessa sýn alla sem er svo mikilvæg. Það er sú viðleitni sem ég er ánægður með, að það sé verið að reyna að ná utan um þessa hluti. Við erum búin að vera kannski of lengi að skjóta úr okkar byssum í allar áttir. Það er svo mikilvægt að skilaboðin séu þau sömu, skilaboðin séu einföld og nákvæm þegar við erum í raun að markaðssetja og selja okkar stóra land, sem við búum reyndar ekki mörg á. Okkur hefur gengið ágætlega að sumu leyti. Það tókst ágætlega verkefnið og er svo sem enn í gangi Inspired by Iceland, þar sem menn voru að einbeita sér að því að einfalda skilaboðin. En þegar kemur að því að selja vörur, eða flytja út fisk eða kjöt eða fá túrista til Íslands, eitthvað slíkt, selja tónlist eða bækur, þá verðum við að geta samræmt alla þá vinnu, samræmt skilaboðin sem við erum að senda. Ég held að þetta sé til bóta þegar kemur að því.

Varðandi útflutnings- og markaðsráðið held ég að það sé mikilvægt að það sé eitthvert ráðgefandi ráð eða ráð sem hafi skoðanir á hlutunum og marki stefnu sem margir hagsmunaaðilar koma að, en það kann að vera að það þurfi að skýra hlutverk ráðsins eitthvað betur, ég ætla ekki að segja það. En það er mjög mikilvægt samt að við förum ekki að búa til eitthvert batterí sem fúnkerar ekki. Ég held að viðleitnin hjá hæstv. ráðherra með frumvarpinu sé að koma í veg fyrir að svo sé. Í það minnsta væri þá verr af stað farið en heima setið ef það yrði niðurstaðan. Það er mjög mikilvægt að það sem við fáum út úr þessu sé einfalt og gott, þetta verði framsækin sjálfseignarstofnun sem við getum bakkað upp með stolti.