148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[22:23]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu, hún hefur verið mjög áhugaverð og ég held að hún hafi sömuleiðis verið sérstaklega gagnleg. Frumvarpið lætur kannski ekki mikið yfir sér en geymir mörg atriði sem mikilvægt er að velta upp.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom í ræðu sinni inn á sitt fyrra líf sem hæstv. utanríkisráðherra og aðkomu sína að undirbúningi þessa máls. Mig langaði því að tæpa aðeins á því sem hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á áðan í umræðu við hæstv. utanríkisráðherra Guðlaug Þór Þórðarson sem er aðkoma landshlutanna, aðkoma markaðsstofanna.

Þegar maður les frumvarpið er talað um, ef ég man rétt, að þær geti mögulega verið í fagráðum eða eitthvað slíkt. En ég myndi telja að markaðsstofurnar og hlutverk þeirra í markaðssetningu landsins og markaðssetningu landshlutanna sérstaklega sé gríðarlega mikilvægt. Ég heyri það í samtali við forsvarsmenn þeirra að þau hafa nokkrar áhyggjur af því að aðkoma þeirra að starfi Íslandsstofu sé ekki tryggð.

Ég er svolítið forvitin að heyra hvort hv. þingmaður kannist við þá umræðu í vinnunni sem fór fram áður í starfshópnum, við undirbúning þessa frumvarps, og þá hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að aðkoma landshlutanna gæti mögulega verið að starfsemi Íslandsstofu. Það verður væntanlega aðeins flóknara þegar þetta er komið í það form sem lagt er til hér.