148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[22:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Mér hefur fundist hún málefnaleg og góð. Svo að þær athugasemdir sem komu fram hjá hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson um Ríkisendurskoðun séu kláraðar er eðlilegt að geta þess, það hefur eitthvað lent milli skips og bryggju, að hugmynd okkar er sú að Ríkisendurskoðun taki út og endurskoði þessa stofnun. Ég vonast til að hv. nefnd geri slíka breytingu.

Einnig kom fram hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni spurning um hvort markaðsgjaldið myndi lækka, eða tryggingagjaldið. Svarið er einfaldlega nei. Það tengist ekki. Það á ekki að vera, svo að því sé haldið til haga.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir veltir því upp af hverju ríkið komi að þessu. Það er samdóma álit allra sem að þessu máli koma að mikilvægt sé að opinberir aðilar og atvinnulífið vinni saman að þessu. Kannski hefur einn vandinn verið sá að menn eru ekki alltaf að gera það. Bæði eru opinberir aðilar ekki að senda sömu skilaboðin og sömuleiðis hefur ekki alltaf náðst samstaða. Kannski næst aldrei fullkomin samstaða um það en í stóru myndinni í það minnsta er mjög mikilvægt að allir þessir aðilar sem vinna að því að kynna landið sem fjárfestingarkost og auka útflutningstekjur vinni saman. Þess vegna er þetta til komið, þetta á að vera vettvangur til að vinna að því.

Mér þykir vænt um þegar hv. þingmaður segir að ég standi að einkavæðingu. Það fer sæluhrollur um mig þegar ég heyri það. En ég get nú ekki alveg hreykt mér af því, einfaldlega vegna þess að það stóð aldrei til að þetta yrði ríkisstofnun. Athugasemdir komu seinna, frá umboðsmanni Alþingis, um að það ætti að skýra stjórnsýslulega stöðu stofnunarinnar, en það lá aldrei fyrir og var aldrei meiningin með stofnun Íslandsstofu að hún yrði ríkisstofnun, enda hafa starfsmennirnir aldrei verið ríkisstarfsmenn svo að dæmi sé tekið. Það þurfti að klára það verk að skýra það. Það er gert með þessu frumvarpi.

Hv. þingmaður veltir því upp hvernig það sé varðandi vörumerkið Icelandic. Það er nokkuð sem utanríkisþjónustan hefur unnið að og mun auðvitað gera áfram. En það gerðist í dag að það vörumerki var afhent af Framtakssjóði. Það var síðasta verk Framtakssjóðs að afhenda það til stjórnvalda með það að markmiði að hægt væri að nýta það í markaðssetningu. Það var afskaplega gleðilegt og ánægjulegt. Hugsunin er sú að það verði hýst í Íslandsstofu, sjálfseignarstofnun.

Gert er ráð fyrir að ráðstafa fjármunum á fjárlögum hvers árs, sem koma á endanum til ráðstöfunar Íslandsstofu, alls um 1 milljarði kr., frá fleiri ráðuneytum. Eins og komið hefur fram er gert ráð fyrir að gerður verði þjónustusamningur milli ríkisins og Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, sem nái yfir alla þessa fjárlagaliði og þau ráðuneyti sem í hlut eiga séu aðilar að samningnum. Með því yrði í fyrsta sinn safnað saman undir einn hatt ráðstöfun fjármuna sem hingað til hefur verið gerð með nokkrum aðskildum samningum. Með þessu næst eitt af þeim markmiðum sem sett voru með starfi starfshópsins, að nýta betur það fjármagn sem er til ráðstöfunar og auka gegnsæi í ráðstöfun þess.

Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á athugasemdum við einstaka greinar frumvarpsins á bls. 13. Mér finnst þar vera tekinn saman ágætistexti um uppbygginguna og hugsunina á bak við útflutnings- og markaðsráð sem er einn af kjörnunum í þessu frumvarpi. Með leyfi forseta, myndi ég vilja fá að lesa hér aðeins upp úr því:

„Engin samræmd langtímastefna er í markaðsmálum á erlendri grundu. Ímynd Íslands er ekki mótuð í samstarfi innan lands með markaðsstarf að leiðarljósi. Þessu er ætlunin að breyta þannig að til verði stefna þar sem flestar, ef ekki allar, útflutningsgreinar geti fundið samhljóm í þeirri ímynd sem Ísland hefur á erlendum mörkuðum. Þar þarf að huga sérstaklega að samspili einkaframtaks og hins opinbera og hvernig megi best nýta sameiginlega krafta til markvissrar markaðssetningar og samhæfingar. Skapa þarf sterkan samhljóm, einhvers konar „nation branding“ í allri grunnkynningu og kynningarefni. Ímynd og orðspor verður að byggjast á sérstöðu Íslands sem hægt er að tengja við allar helstu útflutningsgreinarnar og stefnu um beinar nýjar erlendar fjárfestingar. Skilaboðin þurfa jafnframt að svara væntingum neytenda og eftirspurn á markaði.

Markmiðið með stofnun útflutnings- og markaðsráðs er að styrkja stefnumótun til langs tíma í markaðsstarfi Íslands á erlendri grundu. Sterkari tengingar skapast með þessu milli stjórnvalda annars vegar og útflutningsgreina hins vegar. Pólitísk ábyrgð er gerð ákveðnari. Að sama skapi næst fram breiðari aðkoma að þessari stefnumótun sem eykur líkurnar á því að hin endanlega stefna taki tillit til sem flestra hagsmuna. Ráð af þessu tagi skapar einnig tækifæri til þess að eiga breitt samráð um markaðsmál í víðum skilningi, mótun stefnu í ímyndarmálum Íslands o.s.frv.“

Eins og hv. þingmaður vísaði í áðan og ég ræddi í upphafi míns máls er fyrirmyndin að miklu leyti sótt til Vísinda- og tækniráðs. Seinna segir, virðulegi forseti:

„Lagt er til að ráðið sé skipað til fjögurra ára í senn. Er það lagt til með hliðsjón af skýrslu starfshópsins sem lagði áherslu á að sú stefna sem væri mótuð til langs tíma væri þess eðlis að hún þyrfti ekki að sæta sérstakri endurskoðun við upphaf hvers kjörtímabils.

Sérstaklega er tekið fram að útflutnings- og markaðsráði sé heimilt að setja á afmörkuð verkefni sem starfi þá á milli funda í ráðinu sjálfu. Þetta gefur til dæmis færi á því að fjalla um sérstök mál einstakra atvinnugreina eða afmarkaðra markaðssvæða. Sjá má fyrir að ráðið hafi starfandi sérstakan hóp um ferðaþjónustu, markaðssetningu í Asíu o.s.frv. Með þessu er leitast við að halda sérstökum verkefnum innan ákveðins ramma að því er varðar stjórnun en einnig faglega þar sem starfi hópa af þessu tagi væri mörkuð stefna í þeirri langtímastefnu sem unnið er eftir.“

Ég held að það sé skynsamlegt að leggja þessa hluti upp með þessum hætti. Þrátt fyrir að ráðið sé stórt, þ.e. 29 einstaklingar, held ég að það sé nauðsynlegt til að breið samstaða náist. Allir þeir aðilar sem eiga hlut að máli verða einfaldlega að koma að þessu borði.

Ég get ekki heyrt annað en að alla vega þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað séu jákvæðir út í þessa breytingu. Það er mjög ánægjulegt. Mikil vinna hefur verið lögð í að reyna að ná breiðri samstöðu um frumvarpið. Það er að sjálfsögðu samstaða um frumvarpið í ríkisstjórn, annars væri það ekki lagt fram, en sömuleiðis á milli þessara hagsmunaaðila.

Ástæðan fyrir því að tekið hefur langan tíma að undirbyggja þetta, því að það hefur tekið langan tíma, er, myndi ég segja, að stærstum hluta sú að það eru ýmis tæknileg úrlausnarefni sem hefur þurft að vinna úr til að hægt sé að leggja frumvarpið fram. Það er nú bara þannig að menn eru meðal annars að koma til móts við þær athugasemdir sem hafa komið fram hjá opinberum eftirlitsstofnunum og ná þeim markmiðum sem lagt er upp með í frumvarpinu. Það er ekki bara verið að ræða um að ná pólitískri samstöðu heldur ekki síður að finna út úr hinum ýmsu tæknilegu verkefnum sem menn hafa þurft að vinna til að ná tilsettum markmiðum.