148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[22:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa samantekt. Í greinargerð með frumvarpinu segir að almenn lög um sjálfseignarstofnanir muni ekki gilda um Íslandsstofu heldur muni þessi lög gilda um hana því að þau séu sérlög. Sérlög ganga framar almennum lögum eins og við þekkjum. Hver er munurinn? Hvað felst nákvæmlega í þessu? Felst í þessu aukið aðhald gagnvart Íslandsstofu? Aukið gegnsæi um ákvarðanir? Nú er Íslandsstofa undanskilin stjórnsýslulögum og því eftirliti sem í þeim felst. Hver er munurinn á því að Íslandsstofa er þá undanskilin almennum lögum um sjálfseignarstofnanir og eingöngu háð þessu frumvarpi sem verður hugsanlega að lögum. Það er kannski fyrri spurningin.

Síðan vil ég einfaldlega benda á það sem umboðsmaður sagði í niðurstöðu í áliti sínu þegar hann fór yfir stöðu Íslandsstofu og þar á undan Útflutningsráðs. Þá segir hann að í raun sé um opinbert stjórnvald að ræða eftir allri myndinni. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að um opinbert stjórnvald sé að ræða. Til þess væru þessir tveir kostir, að gera Íslandsstofu með formlegum hætti að opinberri stofnun með réttindum og skyldum og hins vegar að kveða skýrt á um í lögum að þetta sé rekstur í samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs. Það er sú leið sem hér hefur verið farin. Það er þess vegna sem mér finnst gaman að nefna að það er sú leið sem utanríkisráðherra valdi og fékk til liðs við sig Vinstri græna.