148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[22:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að bíða með frekari stríðni þar til málið kemur til nefndar og kannski til síðari umræðu. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara alveg muninum á almennum lögum um sjálfseignarstofnun og þessum sérlögum. Í hverju felst munurinn á því að Íslandsstofa og hennar gildissvið fari eingöngu eftir þessum lögum á móti því að hún falli undir almenn lög um sjálfseignarstofnun? Það væri ágætt ef ráðherra færi yfir það.

Ég verð reyndar að viðurkenna að þetta er svo dásamlegur dagur. Ég veit að hæstv. ráðherra deilir því með mér. Það er svo erfitt að vera með einhver skot á þessum tíma þessa dásamlega dags sem ráðherra veit alveg hvað felur í sér. Ég vil hins vegar óska honum velfarnaðar í hans samtölum, ekki síst við hans aðstoðarmann, og ég hvet hann til að ræða úrslit þessa dags lengi og vel við hann um leið og við munum að sjálfsögðu af fyllstu alvöru fara yfir þetta mikilvæga mál. Ég fagna því að við fáum tækifæri til að ræða þetta. Það skiptir miklu máli fyrir hagsmuni Íslands að við samhæfum krafta atvinnulífsins og hins opinbera og að útkoman verði þannig að við öll getum tekið undir að Ísland spili ávallt til úrslita, alveg eins og stórkostlegt lið mun gera þegar þar að kemur í Kiev í lok maímánaðar.