148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

barátta gegn fátækt.

[15:04]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að nýta þær tvær mínútur sem ég hef fyrir þessa fyrirspurn sem mig langar að beina til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Hún er stutt. Hún lýtur að því að ég á mér draum. Ég á mér þann draum að einhvern tíma auðnist okkur sú gifta að allir alþingismenn, hvar í flokki sem þeir standa, sameinist í baráttunni gegn fátækt. Að við sem höfum verið valin til að hugsa um velferð þjóðarinnar séum þess verðug. Að þegar lögð er fram fimm ára fjárhagsáætlun sé aldrei neinn vafi á hver forgangsröðunin á að vera. Það er fólkið okkar sem á að vera tekið út fyrir sviga og á alltaf að vera númer eitt.

Því miður er það ekki raunin með þá fjármálaáætlun sem við erum að fara að fjalla um síðar í dag.

Þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvenær er mögulegt að þessi draumur minn rætist? Getur þú séð það fyrir þér? Hvenær er mögulegt að við stöndum undir þeirri ábyrgð sem okkur er veitt hér sem löggjafanum í landinu?