148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

upplýsingaveita stjórnvalda við Alþingi.

437. mál
[15:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er skýrslubeiðni um það að Ríkisendurskoðun fari í þá úttekt hvernig stjórnsýslan sinnir upplýsingaskyldu sinni við Alþingi, við starfsfólk Alþingis, við okkur þingmenn, við þingnefndir. Það þýðir í rauninni að Ríkisendurskoðun sem er eftirlitsstofnun Alþingis fer yfir það með greinargóðum hætti hvað þetta kostar, hvort aðföng eru til staðar, fjármunir, starfsfólk o.s.frv., til að sinna þessari upplýsingaskyldu þannig að við á Alþingi getum sinnt eftirlitshlutverki okkar gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það verður mjög gagnlegt að fara yfir þetta því að það sem Ríkisendurskoðun gerir jafnframt er að leggja til úrbætur. Það gæti verið í formi þess að kannski er ódýrara að hafa þetta bara opið í stað þess að við þurfum að vera endalaust að spyrja spurninga um upplýsingar sem liggja kannski fyrir í gögnum sem hafa ekki verið birt. Hlakka til að sjá útkomuna.