148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 sem dreift hefur verið á þskj. 716. Eins og fram hefur komið ber að lögum að leggja áætlunina fyrir Alþingi eigi síðar en 1. apríl hvert ár. Nú bar svo við, m.a. vegna stjórnarskipta, að gerð fjármálaáætlunarinnar seinkaði nokkuð og sömuleiðis stóð þannig á að 1. apríl bar upp á páskadag. Þetta tvennt olli því að ekki var hægt að standa við lögbundinn framlagningarfrest og áætlunin því lögð fram nokkrum sólarhringum síðar. Hún var kynnt strax eftir páska, 4. apríl sl., og lögð fram sama dag á Alþingi.

Ég vil einnig geta þess, eins og fram hefur komið, að það reyndist nauðsynlegt að prenta áætlunina upp og lagfæra nokkrar skýringartöflur í greinargerð málefnasviða. Ég vil að hér komi fram að það hefur engin áhrif á þingsályktunartillöguna sjálfa eins og hún lá fyrir í fyrri prentun en nokkrar skýringartöflur þurftu lagfæringar við vegna þess að þær höfðu ekki verið uppfærðar til samræmis við lokabreytingar á áætluninni sjálfri.

Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára er nú lögð fram á Alþingi í þriðja sinn en í fyrsta sinn af þessari ríkisstjórn. Áætlunin felur í sér útfærslu á markmiðum fjármálastefnu og á stefnumörkun um þróun tekna, gjalda og efnahags opinberra aðila, þ.e. A-hluta ríkis og sveitarfélaga og fyrirtækja í þeirra eigu. Það felur í sér að markmið um afkomu- og skuldaþróun skulu vera þau sömu í fjármálaáætlun og koma fram í fjármálastefnunni.

Fjármálastefna og fjármálaáætlun taka til opinberra aðila í heild, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja hins opinbera. Þótt ríkisreksturinn sé mun umfangsmeiri er það sameiginleg ábyrgð ríkis og sveitarfélaga að tryggja að ákvarðanir séu í samræmi við markmið hagstjórnarinnar, einkum að fjárfestingar séu minni þegar þensla er mikil og öfugt. Samstarf ríkis við Samband íslenskra sveitarfélaga á sviði opinberra fjármála er einn lykilþáttur í því að tryggja sjálfbærni í opinberum fjármálum og að þau stuðli að efnahagslegum stöðugleika og hagvexti.

Þá vík ég að efnahagsforsendum áætlunarinnar. Fjármálaáætlunin sem hér er lögð fram er byggð á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá því í febrúar 2018. Í spá Hagstofunnar er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 2,9% í ár og 2,8% á næsta ári en um 2,5–2,6% eftir það. Gangi þessar spár eftir verður þetta lengsta samfellda hagvaxtarskeið Íslandssögunnar. Mig langar af þessu tilefni að fjalla stuttlega um þá gagnrýni sem fram hefur komið á tekjuhlið áætlunarinnar.

Fyrst vil ég nefna að þjóðhagsspá Hagstofu Íslands er í aðalatriðum áþekk efnahagsspám annarra aðila. Bæði Seðlabanki Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gera þó ráð fyrir ívið meiri hagvexti næstu þrjú árin. Enginn þessara aðila, eða aðrir aðilar sem spá fyrir um efnahagsframvindu á Íslandi, gerir ráð fyrir snörpum samdrætti efnahagsumsvifa á næstu misserum.

Með hliðsjón af þessum spám og greiningum og fyrirliggjandi vísbendingum í hagtölum er engin ástæða til að ætla að það dragi meira úr hagvexti en reiknað er með. En að sjálfsögðu verður áfram fylgst grannt með efnahagsframvindunni. Við bæði fjárlagagerð og fjármálaáætlunargerð hvers árs, sem er til fimm ára í senn, verður tekið mið af þeim breytingum sem eru að verða á efnahagsspám. Þannig verður, má segja, stöðugt litið til stöðu efnahagsmála, bæði að vori þegar fjármálaáætlun er lögð fram og svo aftur að hausti þegar fjárlagafrumvarpið er lagt fram, og tekið mið af stöðunni hverju sinni. Við förum í gegnum þetta ferli á hverju ári og það er augljóst, m.a. með tilliti til fjármálastefnunnar, að ef aðstæður eru að breytast munum við taka tillit til þess.

Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að afkoma hins opinbera á árinu 2019 verði jákvæð um sem nemur 1,3% af vergri landsframleiðslu, tæplega 37 milljarða kr., og að hún verði jákvæð um 1,1% af vergri landsframleiðslu að meðaltali á áætlunartímabilinu. Gert er ráð fyrir að afgangur af heildarafkomu ríkissjóðs verði ekki minni en 1% af vergri landsframleiðslu árið 2019 og að jafnaði ekki minni en 0,8–0,9% af vergri landsframleiðslu á árunum 2020–2023. Það svarar til þess að árlegur afgangur verði 25–34 milljarðar kr. eða um 140 milljarðar kr. uppsafnað til ársins 2023. Í fjármálaáætlun er því gert ráð fyrir áframhaldandi afgangi af rekstri ríkis og sveitarfélaga öll ár áætlunarinnar í samræmi við þá fjármálastefnu sem lögð var fram samhliða fjárlögum ársins 2018.

Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað hratt á undanförnum árum eða úr um 1.500 milljörðum kr. þegar þær náðu hámarki árið 2012 í 911 milljarða kr. í lok síðasta árs. Lækkun skulda má rekja til ábyrgrar ríkisfjármálastefnu, viðsnúnings í rekstri ríkissjóðs og að sjálfsögðu ráðstöfunar stöðugleikaframlaga til skuldauppgreiðslu. Aðrar óreglulegar tekjur hafa sömuleiðis gengið til niðurgreiðslu skulda og svo höfum við dregið úr stærð gjaldeyrisforðans til að lækka skuldastöðuna.

Í samræmi við fjármálastefnu er í áætluninni gert ráð fyrir áframhaldandi lækkun skulda hins opinbera. Gert er ráð fyrir að strax á árinu 2019, sem sagt í lok næsta árs, verði skuldamarkmiðum náð, ári fyrr en áður hafði verið gert ráð fyrir í fjármálastefnu sem hljóta að teljast mjög ánægjuleg tíðindi.

Í lok tímabilsins eru heildarskuldir ríkissjóðs áætlaðar um 740 milljarðar kr. og verður hlutfall brúttóskulda af vergri landsframleiðslu þar með um 21%. Þetta eru mjög sterkar vísbendingar um að við séum að nýta hagvaxtarskeiðið til að styrkja okkur til lengri tíma, búa í haginn fyrir þrengri stöðu í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Markmið þessarar fjármálaáætlunar er að varðveita efnahagslegan stöðugleika og tryggja stefnufestu í opinberum fjármálum samhliða því að treysta samfélagslega innviði. Ágætt jafnvægi er í hagkerfinu um þessar mundir eftir kröftugan vöxt undanfarin ár. Þetta birtist m.a. í litlu atvinnuleysi, lítilli verðbólgu, hóflegum verðbólguvæntingum og betri eiginfjárstöðu heimila og fyrirtækja en verið hefur um langt skeið. Ytri aðstæður hafa verið þjóðinni hagfelldar. Þar hefur uppgangur ferðaþjónustunnar leikið stórt hlutverk, auk þess sem vel hefur gengið í flestum atvinnugreinum á liðnum árum. Viðfangsefnið fram undan er að varðveita þennan árangur og framlengja hann með samstilltri hagstjórn peningamála, opinberra fjármála og vinnumarkaðar.

Fjárfesting í innviðum samfélagsins er eitt af lykiláherslumálum þessarar ríkisstjórnar. Í kjölfar mikillar lækkunar skulda og um leið þá vaxtagreiðslna hefur skapast svigrúm til innviðauppbyggingar og þess sjást skýr merki í þessari áætlun. Alls er gert ráð fyrir að fjárheimildir til fjárfestinga í útgjaldarömmum málefnasviða á tímabilinu 2019–2023 nemi ríflega 338 milljörðum kr. Meðal helstu verkefna er bygging nýs Landspítala sem allir þekkja. Bygging Húss íslenskunnar er annað verkefni sem nú fer að komast á verklega stigið. Gert er ráð fyrir myndarlegri innviðauppbyggingu á ferðamannastöðum, við ætlum að endurnýja þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna og uppbygging hjúkrunarheimila verður áfram verkefni sem við ætlum að sinna með myndarlegum hætti.

Loks er gert ráð fyrir verulegum framlögum til uppbyggingar í samgöngumálum og fjarskiptum og verður alls um 120 milljörðum kr. varið til þessara málaflokka.

Meðal annara helstu verkefna má nefna að á sviði heilbrigðismála verður áfram unnið að styttingu biðlista og hjúkrunarrýmum fjölgað. Greiðsluþátttökukerfi sem tekur gildi á þessu ári verður áfram innleitt og betur fjármagnað og stefnt að því að halda áfram lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga. Þjónusta vegna geðheilbrigðis verður styrkt verulega með fjölþættum aðgerðum um allt land og efling heilsugæslunnar er enn á dagskrá.

Auk verkefna á sviði heilbrigðismála rúmast fjölmörg önnur verkefni innan áætlunarinnar. Þar má nefna stóraukin framlög til landamæravörslu og löggæslu, sérstakt átak vegna meðferðar kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. Á sviði menntamála verður staðið myndarlega að aðgerðaáætlun um máltækni og háskólastigið eflt. Þá er vert að geta aukinna framlaga til að draga úr tannlæknakostnaði aldraðra og öryrkja. Einnig er fyrirhugað að gera breytingar á bótakerfi almannatrygginga fyrir öryrkja en þær breytingar verða unnar í samráði við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega.

Á sviði utanríkismála vil ég leyfa mér að tiltaka sérstaklega hér aukin framlög til þróunaraðstoðar.

Það er áætlað að á tímabilinu vaxi heildarútgjöldin árlega um 40–50 milljarða, rúmlega, að árinu 2022 undanskildu þegar þau vaxa um tæpa 30 milljarða. Það svarar til 4,1–6,8% nafnvaxtar á ári en 3,2% á árinu 2022. Að undanskildum vaxtagjöldum er gert ráð fyrir að vöxtur frumgjalda verði áþekkur vexti vergrar landsframleiðslu yfir tímabilið. Þó er gert ráð fyrir að hann verði nokkru meiri árin 2019–2021 vegna samgöngumálanna sérstaklega.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir lækkanir á skatthlutföllum á undanförnum árum hafa tekjur af sköttum og tryggingagjaldi ekki verið meiri síðan fyrir bankahrunið. Hér má nefna að miðþrep tekjuskatts var afnumið og lægra þrepið jafnframt lækkað. Þrátt fyrir þetta hafa tekjur af tekjuskatti einstaklinga vaxið um u.þ.b. 40% frá árinu 2015. Áfram er stefnt að því að draga úr álögum, gera skattheimtu sanngjarnari og tryggja skilvirka skattframkvæmd.

Í samræmi við stjórnarsáttmálann mun ríkisstjórnin eiga samtal við aðila vinnumarkaðarins um samspil tekjuskatts og bótakerfanna. Einnig verða ræddar breytingar á tryggingagjaldi og vinnumarkaðstengdum réttindum.

Í áætluninni er, líkt og kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, gengið út frá að tekjuskattur lækki í neðra skattþrepi og er gert ráð fyrir um 1 prósentustigs lækkun. Samhliða er stefnt að heildarendurskoðun tekjuskatts einstaklinga og bótakerfa og þar horfum við til þess hvernig bótakerfin í heild sinni kallast á við framkvæmd tekjuskattskerfisins með tveimur þrepum og persónuafslætti. Markmiðið með þeirri endurskoðun er að við horfum sérstaklega til þess að styðja áfram myndarlega við barnafjölskyldur og þá sem glíma við húsnæðiskostnað, sérstaklega snemma á starfsævinni. Út úr þessu eiga að koma markvissari aðgerðir til að styðja efnaminni heimili.

Gert er ráð fyrir lækkun tryggingagjalds í áætluninni upp á 0,25% á næsta ári og þannig lækkar tryggingagjaldið, heildargjaldið, úr 6,85% í 6,6%. Jafnframt er reiknað með að komið geti til frekari lækkunar en að það verður að ráðast af samráði við aðila vinnumarkaðarins, m.a. um útfærslu einstakra réttinda sem fjármögnuð eru með tryggingagjaldi og að sjálfsögðu verður þetta einnig að ráðast af afkomumarkmiðum ríkissjóðs.

Virðisaukaskattur á bækur verður afnuminn í byrjun næsta árs og ári síðar er gert ráð fyrir breytingu á fyrirkomulagi skattlagningar á höfundaréttargreiðslum þegar þær verða í raun skattlagðar sem fjármagnstekjur. Í seinni áfanganum verður sömuleiðis horft til skattlagningar á fjölmiðla og tónlist. Þarna erum við að horfa til ársins 2020.

Sérstakur bankaskattur verður lækkaður eins og boðað hefur verið. Hér er um að ræða tímabundinn skatt sem bjagar samkeppnisstöðu á íslenskum fjármálamarkaði og mikilvægt að gera ráð fyrir því í fimm ára áætlun að hann lækki að nýju. Skattaívilnun vegna þróunarkostnaðar og rannsókna verður tekin til endurskoðunar og þökin verða hækkuð strax á næsta ári. Við stefnum að afnámi slíkra þaka á áætlunartímanum. Hér er horft til samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja til lengri tíma og mikilvægt að við höldum vöku okkar þar. Undirbúningur að endurskoðun laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki er þegar hafinn en gildandi lög munu að óbreyttu falla úr gildi í lok árs 2019. Þarna eru skýr merki um áherslu nýrrar ríkisstjórnar á sviði nýsköpunar, rannsókna og þróunar.

Í upphafi þessa árs var kolefnisgjald á eldsneyti hækkað um 50%. Það er fyrirhugað að hækka gjaldið, eins og segir í stjórnarsáttmálanum, um 10% til viðbótar á næsta ári og aftur ári síðar. Þá er í áætluninni gert ráð fyrir að skoðaðar verði leiðir til gjaldtöku á ferðamenn frá árinu 2020.

Virðulegi forseti. Miklar efnahagslegar framfarir hafa orðið á undanförnum árum, langt hagvaxtarskeið stendur yfir. Þetta hefur gert okkur kleift að rétta við fjármál hins opinbera og koma þeim á traustari grunn í góðu samstarfi við m.a. forystumenn sveitarfélaga. Sterk staða ríkissjóðs um þessar mundir gerir ríkisstjórninni kleift að auka við framlög til uppbyggingarverkefna, til innviðafjárfestinga og styrkja samfélagsþjónustuna. Miðað við fyrirliggjandi efnahagsspár og greiningar eru góðar aðstæður fyrir hendi til að viðhalda áfram traustum hagvexti. Meginviðfangsefni hagstjórnarinnar fram undan felst í því að allir helstu hagaðilar taki höndum saman (Forseti hringir.) og varðveiti þann mikla árangur sem náðst hefur. Verkefnið er að viðhalda efnahagslegum stöðugleika en skapa um leið forsendur fyrir áframhaldandi hagvexti og fjölbreytni í atvinnulífinu. (Forseti hringir.)

Ég legg til, virðulegi forseti, að þessari áætlun verði vísað til hv. fjárlaganefndar að lokinni þessari umræðu.