148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:01]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Klárum aðeins barnabæturnar fyrst. Hjón með eitt barn sem eru bæði með 470 þús. kr. í mánaðarlaun fá engar barnabætur. Er það mat hæstv. ráðherra að hafa 470 þús. kr. á mánuði sé hátekjufólk? Það er fólk sem (Gripið fram í.) missir allar barnabæturnar í þessu kerfi. Það er mjög áhugaverð yfirlýsing sem hér kemur fram frá ráðherra. Hann ætlar að berjast gegn því að sett verði viðbótarfjármagn í barnabætur. Þetta er þvert á það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að lofa. Vinstri græn hafa talað fyrir því að auka stuðning við barnafjölskyldur, m.a. með barnabótakerfinu. Það er sorglegt að sjá að nákvæmlega sama krónutala er að fara í barnabætur næstu fimm árin. Það er sorgleg staða að þessi ríkisstjórn vilji ekki setja krónu til viðbótar í vaxtabætur. Þetta eru tvö tæki stjórnvalda sem hafa reynst vel til að mæta fátækum fjölskyldum og millitekjuhópum. Það er einfaldlega búið að grafa markvisst undan þessu kerfi. Einn fjórði er dottinn út úr barnabótakerfinu. Helmingurinn er dottinn út úr vaxtabótakerfinu. Síðast þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn vörðum við 100 milljörðum kr. í vaxtabætur og barnabætur á kjörtímabilinu. Munurinn á milli þessara flokka verður ekki skýrari.

Af skattamálunum. Mér finnst það vond forgangsröðun að lækka skatta fyrst og fremst á ríkt fólk og banka. Það á að lækka bankaskattinn, það kostar 6 milljarða. Það á að lækka tekjuskatt um eitt prósentustig, kostar 14 milljarða. Það er jafn há upphæð og ríkisstjórnin tímir að eyða í vaxtabætur og barnabætur. Það er jafn há upphæð og kostar að fjármagna almenna sjúkrahúsþjónustu hjá öllum heilbrigðisstofnunum úti á landi. Þetta er ekki góð forgangsröðun.

Flöt tekjuskattslækkun gagnast best eftir sem tekjurnar verða hærri. Milljón króna maðurinn fær þrisvar sinnum hærri skattalækkun en aðilinn sem er á lágu tekjunum. Þetta er vond skattstefna og hún er ekki réttlát.