148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir yfirferðina hér áðan. Það er ýmislegt ágætt í þessari framlögðu áætlun, en það er eitt atriði sem mig langar sérstaklega til að koma inn á. Það er vissulega jákvætt að nú sé áætluð lækkun tryggingagjalds um 0,25 prósentustig sem færir tryggingagjaldið úr 6,85 prósentustigum niður í 6,6. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt er horft til þess að 6,6 sé grunnur nema til komi frekari samningar eða það verði hluti af samningum á vinnumarkaði ef ætlunin er að ná hlutfallinu neðar.

Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól og minnt á það að fyrir hrun var tryggingagjaldsprósentan 5,34 prósentustig. Að nú sé horft til þess að gólfið verði 6,6 prósentustig og ríkisstjórnin sé hætt að horfa til frekari lækkunar þýðir það, miðað við áætlun, sem nú liggur fyrir þar sem er áætlað að tekjur af tryggingagjaldi fyrirtækja árið 2019 verði 99,5 milljarðar miðað við 6,6 prósentustiga gjaldið. Ef gjaldið væri hið sama og fyrir hrun, og nú vitum við öll sem hér erum inni að sem betur fer er atvinnuleysi enn minna nú en þá, þá væru tekjurnar 80,5 milljarðar. Það munar á árinu 2019 heilum 19 milljörðum, hvorki meira né minna, sem er þá viðbótarskattlagning á starfsemi fyrirtækja, launaskattur í landinu.

Ég verð að viðurkenna fyrir mitt leyti að mér hefði þótt 0,25% lækkun ágætisskref þótt hægt væri farið, en mér bregður mjög að sjá að það sé orðið gólfið miðað við þessa fimm ára fjármálaáætlun, og óska eftir því að (Forseti hringir.) fjármálaráðherra kannski fari aðeins inn á það og segi mér hvort ég skilji þetta rétt.