148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umræðu um fjármálaáætlunina þykir sumum sem útgjaldavöxturinn heilt yfir sé of mikill, að hann fylgi í kjölfarið á miklum útgjaldavexti á undanförnum árum. Vissulega verður einhvers staðar að draga mörkin varðandi það hversu mikið útgjöldin geta vaxið.

Þegar við horfum til samneyslunnar dregst upp sú mynd í fjármálaáætluninni að við höldum nokkurn veginn sama hlutfalli í samneyslunni af vergri landsframleiðslu. Þegar kemur að vegamálunum sérstaklega er ég sammála hv. þingmanni um að þar þurfum við að bæta verulega í. Við bætum um það bil fjórðungi ofan á það sem áður var áætlað í vegaframkvæmdaþáttinn sérstaklega, sem verður að teljast umtalsvert átak, sérstaklega þessi þrjú ár sem tiltekin eru.

Hér er spurt hvort ekki sé augljóst að gera þurfi meira. Við munum skoða leiðir til þess að gera meira og leiðir til þess að fjármagna það. Við höfum tvö lifandi dæmi núna um að fara slíkar fjármögnunarleiðir, annað eru Hvalfjarðargöngin, hitt eru Vaðlaheiðargöngin sem fara senn að klárast. Í báðum tilvikum var farin gjaldtökuleið.

Í öðrum stórframkvæmdum sem eru til umræðu en eru ekki öll komin inn í áætlanir — ég leyfi mér að nefna t.d. stórframkvæmdina í tengslum við Seyðisfjarðargöng, hvort sem verður farin þar Fjarðarheiðarleiðin eða hvað þeir kalla það, T-leiðin eða einfaldlega fjarðaleiðin, hvor leiðin sem farin verður á endanum þá heyri ég það frá heimamönnum að þeir kalla eftir því að framkvæmdin eigi sér stað eða komist á dagskrá sem fyrst og gjarnan með gjaldtöku ef það er það sem þarf. Um það þurfum við að taka dýpri umræðu í þinginu. Vonandi getum við gert það í tengslum við þessa fjármálaáætlun en það kallar svo sem alveg á sérstaka umræðu hvernig við ætlum að fjármagna framkvæmdir í vega- og samgöngu- og þess vegna fjarskiptamálum á komandi árum vegna þess þetta er lykilinnviðafjárfesting.