148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að byrja með langar mig til þess að minnast á að samkvæmt starfsáætlun var sagt að fjármálaáætlun ætti að koma til þingsins 20. mars þannig að það er ekki afsökun að 1. apríl sé páskadagur, það gerist mun seinna.

Varðandi hagspána sem er fjallað um í þessari fjármálaáætlun þá er þetta svipuð hagspá og var kynnt í fjármálastefnu sem er nýbúið að samþykkja hérna. Allir umsagnaraðilar sem komu fyrir fjárlaganefnd trúðu einfaldlega ekki að hagspáin myndi ganga eftir út spátímabilið. Það var komist svo að orði að enginn hefði spáð efnahagshruni. Og þó að það sé ekki kannski verið að spá efnahagshruni þá alla vega samdrætti og jafnvel neikvæðum vexti.

Mér finnst áhugavert að við fáum þessar mismunandi hagspár annars vegar frá greiningaraðilum okkar, það hefur komið fram gagnrýni á módelið sem þeir nota, þeir nota keimlík módel, og hins vegar Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði og fleiri sem eru að vinna með hagkerfið niðri á mölinni, ef svo má segja. Þannig að mig langar eiginlega til þess að við förum dálítið vel yfir þessar athugasemdir sem okkur bárust varðandi fjármálastefnuna.

Í skattstefnunni í fjármálastefnunni er einmitt ekkert nefnt t.d. um lækkun á sköttum á fjölmiðla. Ég hefði haldið að skattstefnan sem á að vera í fjármálastefnunni ætti að endurspeglast síðan í fjármálaáætlun og fjárlögum. En ef ekki er sagt að það eigi að lækka ýmsa skatta í fjármálastefnunni, skattstefnu ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára, þá finnst mér mjög undarlegt að það birtist allt í einu nýjar skattalækkanir eða skattahækkanir eða hvað sem það er í fjármálaáætlun, sem ekki eru tilteknar í stefnunni. Við erum nýbúin að samþykkja fjármálastefnu og þá finnst mér undarlegt að hérna birtist ný skattalækkun sem ekki er tiltekin þar.