148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Dæmi um það að við höfum sýnt varfærni er þegar við gerum ráð fyrir því í þessari fjármálaáætlun að greiða hraðar upp skuldir en fjármálastefnan gerir ráð fyrir. En við það hafði hv. þingmaður líka athugasemd þegar ég kynnti áætlunina á sínum tíma. Þegar við beitum varfærni og gerum ráð fyrir hraðari uppgreiðslu skulda en fjármálastefnan gerir ráð fyrir þá fær það líka athugasemdir, en þegar við byggjum á hagspám og fylgjum nokkurn veginn því sem þar segir um tekjulínuna þá þykjum við ekki fara nægilega varlega. Mér finnst þetta vera þversögn. Mér finnst þessi gagnrýni ekki standast skoðun. (Gripið fram í.) Svona skil ég hv. þingmann. Mér finnst þetta ekki ganga upp.

Varðandi tekjuskattinn þá rekur mig ekki minni til þess að hafa lagt til breytingar á tekjuskatti eða öðrum sköttum til lækkunar á Alþingi þannig að því væri vel tekið af vinstri flokkunum. Ég minnist ekki þess í þeim dæmum sem við höfum haft.

Þessi ríkisstjórn er í miðju samtali við vinnumarkaðinn um útfærslu bótakerfanna og samspil þeirra við tekjuskattskerfið. Ég ætla ekki hér við kynningu á ríkisfjármálaáætluninni að úttala mig neitt um það til hvers það samtal kann að leiða. Markmiðið er einfaldlega þetta: Að bótakerfin saman með tekjuskattskerfinu, hvort sem við breytum persónuafslættinum eða ekki, nái betur til lægri tekjuhópanna og lægri millitekjuhópanna. Ég myndi mjög gjarnan vilja sjá einföldun á kerfunum þannig að í stað þess að vera með fyrir fólk sem er t.d. komið yfir eina milljón í tekjur bæði persónuafslátt og jafnvel bótagreiðslur sem getur átt við hjá fjölskyldum með segjum þrjú börn undir sjö ára, jafnvel þó að þau séu komin í eina milljón kr. í tekjur, þá séum við bara einfaldlega með lægri skatt, (Forseti hringir.) lítinn eða engan persónuafslátt og færri bótagreiðslur.