148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því af þessu tilefni að lýsa því yfir hversu ótrúlega mikil og jákvæð breyting hefur orðið með tilkomu nýju laganna um opinber fjármál og því fyrirkomulagi sem við erum hér að framkvæma, sem sagt með framlagningu ríkisfjármálaáætlunar til fimm ára að vori til og í þessu breytta umhverfi. Þetta er algjör umbylting á umræðu almennt um opinber fjármál borið saman við það sem átti við þegar ég kom hér fyrst inn á þing, þar sem mér fannst almennt allt of lítil umræða um stærri línurnar í efnahagsmálunum og fjárlaganefnd varði bróðurparti tíma síns í einstök fjárlagatilefni. Nær aldrei var almenn umræða að vori um þau mál sem eru hér sett á dagskrá með fjármálaáætluninni.

Mig langaði til að halda því til haga hversu miklu við höfum þó breytt með því að koma þessum málum á dagskrá og vinna þetta með þeim hætti sem við erum að gera. Þó verð ég að segja að mér finnst við vera dálítið enn þá skríðandi kannski eins og barn og við erum kannski ekki alveg komin upp á lappir vegna þess að enn á eftir að gera betur í því að byggja upp getu í öllum fagráðuneytum til þess að vinna þessa langtímaáætlun. Í sumar fáum við í fyrsta skipti ársskýrslu frá fagráðuneytunum þar sem þau skila því inn hvernig hefur gengið að fylgja eftir markmiðum í ríkisfjármálaáætlun fyrri ára. Við erum enn að læra á þetta ferli.

Varðandi tímann sem umræðan fær: Ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni vegna þess að hér gefst, að því er mér finnst, góður tími til þess að fara yfir málið jafnvel þótt umræðan þurfi að standa fram á nótt á morgun. Það hefur alltaf legið fyrir að bróðurhluti vinnunnar, þunginn í vinnunni, fer fram í nefnd.