148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:29]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get nánast tekið undir hvert orð í ræðu ráðherra nema kannski ályktunarorðin, kannski að öllu leyti. Það er mála sannast að stigin hafa verið stórstíg skref og náttúrlega munar mestu um lögin um opinber fjármál frá 2015 um breytta umgjörð um ríkisbúskapinn og fjárlagagerð. Það ber auðvitað að þakka, virða og meta.

Nú stendur þannig á, herra forseti, að við höfum þurft að fara á handahlaupum í gegnum allan þennan feril vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem sköpuðust hér á stjórnmálavettvangi síðastliðið haust. En þess vegna hefði ég talið að nú væri tilefni til að bæta um betur og skapa meira rými fyrir málefnalega, djúpa og grundaða umræðu.

Ég leyfi mér sömuleiðis að minna á það að samstarfssamningur flokkanna þriggja fjallar ekki bara um samstarf á vettvangi ríkisstjórnar, heldur einnig um eflingu Alþingis eins og þar segir. Þess vegna hefði ég talið að full efni væru til þess að Alþingi fengi meira ráðrúm til að fjalla um þetta plagg. Munum að þetta plagg spannar fimm ára tímabil. Það spannar langt inn á næsta kjörtímabil og verður ekki nógsamlega undirstrikað hversu mikilvægt það er að vel takist til við afgreiðslu þess og að það fái þá umfjöllun hér á Alþingi sem það á svo sannarlega skilið.